Föstudagur 27. maí 2016

Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Vefþjóðviljinn 148. tbl. 20. árg.

Líkt og menn þekkja studdi ríkið landeigendur í áratugi til þess að ræsa fram votlendi. Þegar vatni er veitt á brott í framræsluskurðum kemst súrefni að lífmassanum sem safnast hefur í mýrarnar um aldir. Þar með hefst oxun sem stendur áratugum saman og leiðir til myndunar gríðarlegs magns gróðurhúsalofttegunda. Þetta dró Sigríður Á. Andersen þingmaður Sjálfstæðisflokksins fram með endurteknum fyrirspurnum til umhverfisráðherra á liðnu ári. Losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi er 72% af árlegri heildarlosun hérlendis.

Nýlega spurði Sigríður svo landbúnaðarráðherra hvort ríkissjóður hefði á undanförnum tíu árum styrkt beint eða óbeint framræslu lands eða viðhald á framræsluskurðum sem þegar hafa verið grafnir.

Í svari ráðherrans kemur fram að flest árin hefur verið veitt einhverju fé til viðhalds skurða en ekki til að grafa nýja.

Í lok svarsins segir svo:

Í nýjum rammasamningi um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins, sem undirritaður var 19. febrúar síðastliðinn og ætlað er að leysa gildandi búnaðarlagasamning af hólmi, er ekki gert ráð fyrir neinum styrkjum til framræslu lands, til viðhalds á eldri framræslu eða til hreinsunar affallsskurða eins og gilt hefur undanfarin ár.

Þar með er hann fundinn, ljósi punkturinn í nýja búvörusamningnum.