Vefþjóðviljinn 147. tbl. 20. árg.
Starfsmenn fréttastofu Ríkisútvarpsins hafa ótrúlegan áhuga á „mótmælum“. Þeir hika ekki við að senda fréttamenn á jafnvel fámennustu „mótmæli“, til að dreifa boðskap mótmælenda. Jafnvel „mótmæli“ þar sem fréttamaður hefur talið þátttakendur sem „um fimm talsins“ hafa nægt til að forsvarsmaður „mótmælenda“ fái hljóðnemann til að telja upp kröfur sínar og hinna fjögurra.
Auðvitað er þetta fráleitt en aðeins lítið dæmi af mjög mörgum um notkun starfsmanna á ríkisfjölmiðlinum.
En þótt þetta sé fráleitt þá er ekki með því sagt að fjölmennari mótmæli eigi nauðsynlega erindi í fréttir.
Er eitthvað fréttnæmt við það að stjórnarandstaða sé á móti stjórnvöldum?
Í síðustu þingkosningum fengu stjórnarflokkarnir samanlagt tæplega 100.000 atkvæði. Í sömu kosningum fengu stjórnarandstöðuflokkarnir tæplega 70.000 atkvæði.
Með öðrum orðum greiddu 70.000 manns atkvæði gegn því að núverandi ríkisstjórnarflokkar mynduðu saman ríkisstjórn. Og eru þá ótalin atkvæði þeirra sem kusu einhver þeirra framboða sem ekki fengu mann kjörinn, Dögun, Lýðræðisvaktin, Flokkur heimilanna og svo framvegis.
Til einföldunar má segja að niðurstöður síðustu kosninga hafi verið þær að 100.000 manns hafi stutt stjórnarflokkana og 80.000 manns hafi ekki gert það. Einhverjir þeirra, sem kusu annan hvorn stjórnarflokkinn, hafa svo alls ekki viljað að þessir tveir flokkar mynduðu ríkisstjórn, eins og alltaf er.
Það eru því í upphafi rúmlega 80.000 manns á móti ríkisstjórninni.
Er nauðsynlega fréttnæmt þótt einhver þúsund þeirra komi saman á fundi og heimti að ríkisstjórnin fari frá völdum eða að kjörtímabilið verði stytt? Á rétt kjörinn þingmeirihluti að gefast upp fyrir því?
Skiptir það einhverju máli um „umboð ríkisstjórnarinnar“ eða „umboð þingsins“ þótt einhver þúsund manns mæti bálreið og geri kröfur um að stjórnarandstaðan komist að?
Missir ríkisstjórn eitthvert umboð við það að þeir, sem aldrei hafa stutt hana, séu á móti henni?
Ríkisstjórnarflokkarnir hafa raunverulegt umboð 100.000 Íslendinga, sem gefið var í raunverulegum þingkosningum. Það er ólýðræðislegt og ábyrgðarlaust ef þeir kasta frá sér þvi umboði.