Vefþjóðviljinn 135. tbl. 20. árg.
Það hefur aldrei verið auðveldara og ódýrara að koma skoðun sinni á framfæri en einmitt nú. Menn geta hæglega haft beina útsendingu frá sjálfum sér og sínum mikilvægu erindnum allan sólarhringinn árið um kring. En það dugar ýmsum ekki. Á dögunum var til að mynda „mótmælt“ við heimili eins ráðherrans.
Virtust þar komnir saman nokkrir vinstrimenn, gott ef ekki vinstri grænir og mjög andsnúnir neyslusamfélaginu, yfirgangi mannsins gagnvart náttúrunni, matarsóun, verksmiðjuframleiddum mat, jarðefnaeldsneyti og álverum.
Mótmælendurnir völdu að hlaða sér eldstæði á nokkuð ósnortnu og grónu landi skammt frá heimili ráðherrans. Á hlóðirnar var svo lagt einnota grill. Úr áli. Þá var kveikt upp í kolum. Á grillið voru svo lagðar pylsur úr plastpakkningum til þess eins að eyðileggja þær.
Var ekki örugglega Dieselbíll í lausagangi til reiðu ef mótmælendur hefðu skyndilega fengið boð um að koma niður á Austurvöll að varpa eggjum og ávöxtum í alþingishúsið?