Vefþjóðviljinn 112. tbl. 20. árg.
Hvers vegna ætti lýðræði á Íslandi að þróast á þann veg að þegar hægriflokkur á sæti í ríkisstjórn sé kjörtímabilið aðeins þrjú ár en þegar vinstri flokkarnir sitja í stjórn sé kjörtímabilið full fjögur ár á hverju sem gengur?
Stjórnarskrá lýðveldisins er alveg skýr um þetta. Alþingismenn eru kosnir til fjögurra ára. Einu gildir úr hvaða flokki þeir koma. Enginn fyrirvari er í stjórnarskránni um að þingmenn missi umboð sitt ef Illugi Jökulsson, Birna Þórðardóttir og Vilhjálmur Þorsteinsson lemja saman í olíutunnu á Austurvelli.
Stjórnarandstöðuþingmenn halda þingstörfunum nú í gíslingu með því að þráspyrja um kjördag og hóta að spilla vinnu þingsins. Hvernær verður kosið? Hér verður ekki vinnufriður fyrr en við fáum dagsetningu. Þegar þeir eru búnir að spyrja vandræðalega oft fyrir sjálfa sig spyrja þeir fyrir vin sem ætlar að gifta sig í haust.
Auðvitað eru allur ádráttur um að kosningar verði fyrr enn stjórnarskráin mælir fyrir um úr gildi fallinn eftir þessa framkomu stjórnarandstöðunnar undanfarna daga og vikur.
Fyrir stjórnarflokkana er ekkert annað að gera úr því sem komið er en að fara að skýrum fyrirmælum í stjórnarskránni um fjögurra ára kjörtímabil.
Þingkosningar fara fram í apríl 2017.