Vefþjóðviljinn 103. tbl. 20. árg.
Sú furðulega kenning hefur farið á flot að senda eigi lýðræðislega kjörið alþingi heim „í haust“, einum þingvetri áður en kosning þess, eins og mælir fyrir um í stjórnarskrá, rennur út.
Vissulega varð talsvert uppnám vegna mála fyrrverandi forsætisráðherra en almennir þingmenn gátu ekki frekar en aðrir vitað um hina leyndu hagsmuni mannsins. Stjórnarmeirihlutinn kom sér saman um ríkisstjórn undir nýju forsæti og á meðan meirihlutinn heldur verður ekki kosið fyrr en í apríl að ári.
Það er ekkert lýðræðislegt við það að hrekja lýðræðislega kjörið þing frá völdum með hávaða, sóðaskap og skemmdarverkum úti á Austurvelli. Þvert á móti væri það atlaga að lýðræðinu ef slíkt tækist.
Í langdregnum umræðum undir liðnum „fundarstjórn“ á alþingi í dag kölluðu þingmenn vinstri flokkanna stíft eftir dagsetningu kosninga þótt öllum megi vera ljóst að á meðan annað er ekki ákveðið þá verða kosningar á apríl á næsta ári.
Birgitta Jónsdóttir þingflokksformaður Pírata lét þessi orð falla:
Látið okkur fá dagsetningu. Það kom mjög skýrt fram, forseti, á fundi forseta að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar krefjast þess að fá dagsetningu. Hér verða engin hefðbundin þingstörf fyrr en það verður gert, forseti.
Hér hótar þingflokkskapteinninn að verði ekki gengið gegn stjórnarskrá lýðveldisins verði löggjafarþingið gert óstarfhæft.
Hafi einhver ádráttur verið gefinn um að kosningar yrðu „í haust“ er hins vegar ljóst að hann getur ekki haft nokkurt gildi eftir hótanir sem þessar.