Vefþjóðviljinn 88. tbl. 20. árg.
Þegar vinstristjórnin reyndi að tryggja að íslenska ríkið bæri ábyrgð á Icesave-reikningunum var því meðal annars beitt, fyrstu samningunum til stuðnings, að með þeim kæmist íslenska hagkerfið „í skjól“.
Eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins hafði leitt Jóhönnu og Steingrím til valda í febrúar 2009 var það eitt þeirra fyrsta verk að skipa Svavar Gestsson formann samninganefndar um Icesave. Í samningi sem kenndur var við Svavar var samið um að íslenska ríkið fengi sjö ára frest á greiðslum. Árið 2009, þegar margir voru ennþá skelfingu lostnir eftir bankahrunið, hljómaði sjö ára skjól vel í mörgum eyrum.
En sjö ár líða eins og önnur. Frá árinu 2009 eru einmitt liðin sjö ár. Hvaða byrðar hvíldu á Íslendingum ef vinstrimönnum sem Framsóknarflokkurinn leiddi til valda hefði tekist ætlunarverkið?
Í nýjasta tölublaði Þjóðmála skrifar Sigurður Már Jónsson um þetta mál og vitnar til útreikninga Hersis Sigurgeirssonar, dósents í fjármálum við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, en þeir birtust fyrst á Vísindavefnum. Sigurður Már segir meðal annars:
…Hersir reiknaði út að eftirstöðvar Svavars-samningsins til greiðslu úr ríkissjóði, miðað við 100% heimtur úr þrotabúi Landsbankans, næmu nú 208 milljörðum króna. Það samsvarar 8,8% af [vergri landsframleiðslu] næstu átta árin, frá 5. júní 2016. Það þýðir að sjö ára skjóli því sem Svavari Gestssyni, aðalsamningamanni Íslands, varð svo tíðrætt um er að ljúka. Skattgreiðendur yrðu því að standa skil á 26 milljörðum króna á ári næstu átta árin. Ekki lítil upphæð, sérstaklega þegar haft er í huga að hana yrði að greiða í erlendum gjaldeyri.
En þetta segir ekki alla söguna. Í raun er hægt að segja að efnahagur landsins hafi þróast á besta veg undanfarið. Skuldir einstaklinga, fyrirtækja og þjóðarbúsins lækka jafnt og þétt. Krónan styrkist ár frá ári og því er ljóst að sú upphæð sem hægt er að reikna vegna Icesave er mun lægri en ella hefði orðið. Ef krónan hefði farið í samsavarandi veikindafasa værum við líklega að tala um skuld upp á 300 til 400 milljarða króna.
En þegar samningar eru kenndir við Svavar Gestsson þá er mikilvægt að hafa í huga að samningana gerði Svavar sem embættismaður en ekki stjórnmálamaður. Ábyrgðin hvíldi að sjálfsögðu hjá ráðherrunum sem báru ábyrgð á málinu og hafa tekið lokaákvarðanir.
Og hver er ábyrgð Framsóknarflokksins sem studdi Jóhönnu, Steingrím, Gylfa, Indriða og Svavar til forystu í Icesave málinu?