Óli Björn Kárason varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins veltir því fyrir sér í grein í Morgunblaðinu í gær hvernig lífið væri á Íslandi ef hugmyndafræði vinstrimanna hefði haft að öllu leyti betur í samkeppninni við borgaraleg viðhorf. Það líf væri töluvert fábreyttara, fátækara og leiðinlegra en það sem Íslendingum býðst í dag.
En þótt oft hafi tekist að stíga mikilvæg skref í frelsisátt, og vegna þeirra skrefa sé þjóðfélagið frjálsara og betra en ella væri, er það auðvitað ekki svo að hér hafi frjálshyggjan sigrað. Fyrir utan allt það sem ógert var í frelsismálum hefur ótrúlega margt verið fært til vinstri á síðustu árum. Skattar hafa verið hækkaðir verulega, reglur þandar út, opinberum stofnunum og starfsmönnum fjölgað ógurlega, sjálfákvörðunarréttur fólks skertur, bankakerfið er að stórum hluta í höndum ríkisins, gjaldeyrishöft eru enn í gildi og þannig mætti lengi telja. Verkefnin sem bíða hægrimanna eru mikil og þar mega þeir búast við harðri baráttu við vinstrið
Í niðurlagi greinar sinnar segir Óli Björn:
Í umróti stjórnmálanna – sumir segja upplausn – hefur krafan um samræðustjórnmál orðið háværari. Því er haldið fram að stjórnmálamenn eigi að leggja hugsjónir sínar til hliðar en setjast niður, ræða saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Samkeppni hugmynda er sögð af hinu illa. „Við skulum eiga samtal“ er kjörorð þeirra sem vita ekki hvað þeir vilja, fyrir hvað þeir standa eða forðast hugmyndafræðilega baráttu. Ég þakka fyrir það á hverjum degi að á árum áður hafi harðir baráttumenn frelsis aldrei tekið þátt í samræðustjórnmálum nútímans. Þá hefði þeim seint tekist að búa til eitt mesta velferðarsamfélag heimsins með öllum sínum litbrigðum og fjölbreytileika.