Vefþjóðviljinn 64. tbl. 20. árg.
Það leynir sér sjaldan að flestir starfsmenn Ríkisútvarpsins vilja ganga sjálfala. Þeir vilja fá að fara með stofnunina eins og einkaeign sína og telja algerlega óþolandi ef einhver með lýðræðislegt umboð hefur aðrar hugmyndir. Starfsmenn Ríkisútvarpsins vilja líka margir hverjir hafa sjálfdæmi um fjárveitingar úr ríkissjóði í hítina í Efstaleiti. Þannig hefur þeim með frekju tekist að hræða stjórnmálamenn til hlýðni ár eftir ár, ekki síst nú upp á síðkastið.
Nú síðast gerðist það að einn stjórnarmanna Ríkisútvarpsins sagði opinberlega að hann væri hneykslaður á skemmtiatriði sem boðið var upp á í skemmtiþætti síðastliðið föstudagskvöld. Skemmtiatriðið hefði verið klámfengið. Og um leið byrja reiðiópin úr Efstaleiti. „Óþolandi“ og „ólíðandi“ segir einn dagskrárgerðarmaður Ríkisútvarpins strax. Það má alls ekki „ritskoða“ Ríkisútvarpið, þá er verið að beita valdi.
Það sem er nær því að vera „óþolandi“ er krafa starfsmanna Ríkisútvarpsins um að bera enga ábyrgð. Þeir stýra opinberum fjölmiðli sem fær þúsundir milljóna króna árlega frá skattgreiðendum og senda út efni í sjónvarpi og tveimur útvarpsrásum. Þeir fá að halda úti fréttastofu og halda úti stjórnmálaumræðu í marga klukkutíma á hverjum degi, og þeir ætlast til þess að bera enga ábyrgð gagnvart neinum.
Það á ekki að koma til greina. Auðvitað eiga starfsmenn Ríkisútvarpsins að bera ábyrgð gagnvart lýðræðislega kjörnum fulltrúum kjósenda í landinu.
Menn ættu að ímynda sér þá stöðu að Ríkisútvarpið beitti sér af hörku í þágu stjórnvalda í landinu. Stjórnarstefnan væri lofsungin í fréttum, viðmælendur væru flestir á bandi ríkisstjórnarinnar. Hvað fyndist fólki þá? Ætti menntamálaráðherra og þingmeirihlutinn ekki að bera neina ábyrgð á því? Jú, auðvitað ættu þeir að bera ábyrgð á því.
Og menn gætu svo bara ímyndað sér að starfsmenn Ríkisútvarpsins ákveddu að ljósbláar myndir skyldu sýndar á hverju kvöldi. Dettur einhverjum í hug að kjörnir fulltrúar mættu ekki berja í borðið og segjast ekki líða lengur slíka notkun á opinberum fjölmiðli? Nei, þeir mættu gera það. Þeir beinlínis ættu að gera það. Auðvitað mætti kalla það „ritskoðun“, ef menn eru tilbúnir að gengisfella það orð. En það er bara ekki einkamál starfsmanna Ríkisútvarpsins hvað þeir birta í Ríkisútvarpinu, „almannaútvarpinu“, „öryggistækinu“, „sameign okkar allra.“
Gagnvart hverjum eru starfsmenn Ríkisútvarpsins eiginlega tilbúnir að bera ábyrgð? Stjórn Hollvinasamtakanna?