Fimmtudagur 3. mars 2016

Vefþjóðviljinn 63. tbl. 20. árg.

Þjóðareign er dulnefni yfir ríkiseign - meiri völd stjórnmálamanna.
Þjóðareign er dulnefni yfir ríkiseign – meiri völd stjórnmálamanna.

Nú er unnið að því að koma hugtakinu „þjóðareign“ í stjórnarskrá.

Þjóðareign er auðvitað bara dulnefni á ríkiseign. Nánar til tekið er það ríkiseign sem ríkinu er bannað að selja, getur vart veðsett og er því ekki þungt á metunum þegar lánshæfi ríkissjóðs er metið og lánakjör.

Undir þetta þjóðareignarákvæði munu væntanlega falla alls kyns lönd og jarðir og önnur landsins gæði sem ríkið getur engan mat gert sér úr en útsjónarsamir einstaklingar gætu og hefðu meiri löngun til ef þeir ættu þess kost að eignast landið eða nýtingarrétt.

Eins og mál hafa þróast á undanförnum áratugum þar sem ríkið tekur æ stærri hluta tekna manna og annarra eigna í þjóðfélaginu til sín er raunar ríkari ástæða til að setja skorður í stjórnarskrá við útþenslu ríkisins en að það selji hugsanlega frá sér eignir.