Vefþjóðviljinn 58. tbl. 20. árg.
Á þriðjudaginn kynnti Carbon Recycling International í samvinnu við Brimborg bíl frá kínverska bílaframleiðandum Geely sem gengur að mestu leyti fyrir metanóli. Þó er þörf á bensíni við kaldræsingu og því eru tveir eldsneytistankar í bílnum. Ætlunin er að prufuaka sex slíkum Geely Emgrand 7 bílum hér á landi á metanóli sem framleitt er í verksmiðju Carbon Recycling í Svartsengi.
Ástæðan fyrir því að kínverski bílaframleiðandinn býður bíl sem gengur fyrir metanóli er mikið framboð af tréspíranum á ákveðnum svæðum í Kína þar sem hann er framleiddur úr kolum.
Carbon Recycling notar hins vegar rafmagn, vatn og koltvísýring í framleiðslu sína. Koltvísýringinn fangar það úr útblæstri jarðvarmavirkjunarinnar í Svartsengi.
Slíkar tilraunir með koltvísýring mættu gjarnan leiða til þess að mögulegt verði að eyða koltvísýringi úr andrúmsloftinu með sólarorkunni sem streymir til Jarðar, rétt eins og náttúran sjálf gerir með ljóstillífun. Og með því gæti orðið til nýtt eldsneyti eins og CRI hefur sýnt fram á, hvort sem það væri metanól eða annað eldsneyti með hærra orkuinnihald.
Að nota hreint metanól á þar til gerða bíla sýnist annars vænlegri leið fyrir Íslendinga en hugmyndir um að blanda litlu magni metanóls (< 3%) í hefðbundið bensín sem myndi leiða til aukins innflutnings á eldsneyti vegna hins lága orkuinnihalds metanóls og etanólsins sem þarf einnig að vera til staðar í slíkum blöndum, auk annarra tæknilegra vandamála.
Á upplýsingablaði um metanólbílinn frá Geely voru ýmsar tækniupplýsingar. En þó var ekki gefin upp eldsneytisnotkun eins og hefð er fyrir þegar nýir bílar eru kynntir til sögunnar. Geely gefur upp að eldsneytisnoktun samskonar bensínbíls sé 7,6 L/100km. Gera má ráð fyrir að eyðslan í metanólútgáfunni sé allt að 15 L/100km en það mun væntanlega skýrast í reynsluakstrinum hér á landi á næstu misserum.