Föstudagur 26. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 57. tbl, 20. árg.

Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur hefur miklar áhyggjur af jafnri stöðu kynjanna í hvívetna. Enda er staðan 10 - 1 á skrifstofunni sjálfri.
Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkur hefur miklar áhyggjur af jafnri stöðu kynjanna í hvívetna. Enda er staðan 10 – 1 á skrifstofunni sjálfri.

Fyrir nokkrum árum ákváðu vinstrimenn í Reykjavík að búa til sérstakt „mannréttindaráð“ á vegum borgarinnar. Eru mannréttindi þó ekki sérstakt verkefni sveitarfélaga og ekki vitað til þess að í borginni viðgangist stórfelld mannréttindabrot sem sé á valdi eða verksviði borgarinnar að stöðva.

En auðvitað snýst starf „mannréttindaráðsins“ ekki um raunveruleg mannréttindi. Þar er enginn að velta fyrir sér grunnrétti einstaklingsins til lífs, frelsis og eigna. Þar er enginn að hugsa um hvort atvinnufrelsi einhvers sé skert, til dæmis með því að borgarfulltrúar banni einhverja starfsemi sem þeim sjálfum finnst ógeðfelld.

Mannréttindi mannréttindaráðsins snúast um nútíma vinstri-mannréttindi. Vandlega valda tölfræði. Ásýnd þjóðfélagsins á afmörkuðum sviðum. Nútíma mannréttindi vinstrimannsins snúast ekki um að fólk hafi rétt á því að hefja atvinnurekstur og stjórna honum eins og því finnst sjálfu skynsamlegast. Mannréttindi vinstrimannsins snúast um að hið opinbera skyldi eigendur einkafyrirtækja til að velja konur í stjórn.

Á dögunum yfirheyrðu starfsmenn „mannréttindaráðsins“ dagskrárstjóra útvarpsstöðvarinnar X-ins um fjölda kvenna sem þar stýrðu þáttum. Þetta var sagt tengjast gerð bæklings sem Reykjavíkurborg myndi gefa út á næstunni.

Hvernig er hægt að koma sér upp þeirri hugsun að það komi mannréttindum við hversu margar konur og hversu margir karlar stýri útvarpsþáttum á X-inu? Hvernig réttlæta borgaryfirvöld að útsvarsfé sé notað til þessara „rannsókna“?

En ef „mannréttindaráðið“ hefur áhyggjur af því hvernig kynjahlutföll starfsmanna eru á tiltekinni einkarekinni útvarpsstöð þá mætti velta fyrir sér hvenær ráðið fer og kannar hversu margir vinstrimenn og hversu margir hægrimenn sinna dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu. En það ekki víst að slík tölfræði þykja áhugaverð í ráðhúsinu.