Helgarsprokið 14. febrúar 2016

Vefþjóðviljinn 45. tbl. 20. árg.

Var danska sjónvarpsþættinum 1864 beint gegn ákveðnum stjórnmálaflokki?
Var danska sjónvarpsþættinum 1864 beint gegn ákveðnum stjórnmálaflokki?

Hér hefur oft verið fjallað um slagsíðuna á íslenska Ríkisútvarpinu, enda mikil ástæða til. Eins og oft hefur verið tekið fram þá er ekki með því gefið í skyn að slagsíðan sé vegna skipulegs samsæris starfsmanna sem viljandi halli röngu máli í stóru og smáu í þágu pólitískra markmiða. Slagsíðan komi miklu frekar fram vegna þess að mjög margir starfsmenn fylgja einfaldlega eigin gildismati í dagskrárgerðinni og miða val umræðuefna, val viðmælenda, val spurninga, val athugasemda og svo framvegis við eigið gildismat. Af þessu komi slagsíða í átt til stjórnlyndis, opinberra aðgerða, skatta, styrkja, bóta. Mikill áhugi á „félagslegum réttindum“, lítill á eignarrétti. Ólýsanlegur áhugi á málefnum opinberra starfsmanna. Næstum sami áhugi á „mótmælum“, jafnvel fimm manna mótmælafundur hefur fengið fréttamann með beina útsendingu.

En hvernig er þetta í öðrum löndum? Varla getur það verið hinir „virtu ríkisfjölmiðlar“ þar leyfi starfsmönnum sínum að fara með miðlana eins og þeir eigi þá.

Á dögunum viðurkenndi Ingolf Gabold, fyrrverandi yfirmaður sjónvarpsmynda hjá danska Ríkisútvarpinu, DR, að sjónvarpsþáttaröðin 1864 hefði verið pólitísk framleiðsla, „politisk projekt“. Tilgangurinn hefði verið að berjast gegn viðhorfum Danska þjóðarflokksins, DF. Gabold sagðist vera andvígur áherslum DF á þjóðarstolt.

Gabold segir einnig að þáttaröðin Kronikan hafi líka verið pólitísk, „med stor vægt fortalte, at Socialdemokratiet har skabt velfærdsstaten“, en telur „Borgen“ hafa verið í meira jafnvægi. Menn geta hins vegar velt fyrir hvort þeira Helle Thorning-Schmidt eða Lars Lökke Rasmussen hafi haft meira gagn af því að Danir hafi setið fyrir framan sjónvarpið í nokkur ár og fylgst með hinni óvenjulega heiðarlegu og geðþekku Birgitte Nyborg, fyrsta kvenforsætisráðherra Danmerkur, áður en Helle Thorning náði forsætisráðherrastólnum af Lars Lökke. Auðvitað var það tilviljun.

Svona hafa þeir þetta hjá DR, svo menn ættu ekki að þurfa að láta koma sér á óvart þótt stundum sé slagsíða á íslenska Ríkisútvarpinu. Þar hefur málum verið komið í það horf að starfsmenn bera ekki ábyrgð gagnvart neinum utanaðkomandi og það eru kallaðar ofsóknir ef lýðræðislega kjörnir fulltrúar kjósenda voga sér að hafa skoðun á störfum þeirra. Starfsmenn og yfirmenn Ríkisútvarpsins vilja hafa sjálfdæmi um fjárveitingar frá skattgreiðendum og í menntamálaráðuneytinu hlýða menn hverri skipun úr Efstaleiti. Stjórn Ríkisútvarpsins breytti sér strax í þrýstihóp starfsmanna gagnvart Alþingi og herjaði á ráðuneyti og þingmenn með sama krafti og aðrir þrýstihópar.

Núverandi ríkisstjórn hefur bráðum setið í þrjú ár. Enn hefur ekkert verið gert í málefnum Ríkisútvarpsins, frekar en öðrum. Milljarðarnir streyma frá skattgreiðendum og slagsíðan eykst. Það er með ólíkindum að ekki sé dregið úr fjárstreyminu í hítina í Efstaleiti 1. Árangursleysi núverandi ríkisstjórnar er áberandi í málefnum Ríkisútvarpsins.