Vefþjóðviljinn 30. tbl. 20. árg.
Líkt og Sigríður A. Andersen alþingismaður rakti í grein í Morgunblaðinu á miðvikudaginn eru þegar til staðar refsiákvæði gegn svonefndu hefndarklámi í lögum. Samkvæmt gildandi lögum má gera mönnum refsingu allt að fjórum árum fyrir slíkt. Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa hins vegar flutt í tvígang frumvarp sem miðar að því að gera hefndarklám refsivert. Einu áhrifin af frumvarpi þingmanna Bjartrar framtíðar væru að þrengja refsirammann úr 4 árum í 2.
Það er auðvitað óskiljanlegt og óvanalegt að þingmenn leggi fram tillögu um atriði sem þegar eru í lögum. En þó hefur það gerst ítrekað með þingaályktunartillögu um „niðurfellingu gjalda á vistvænt eldsneyti sem er framleitt innan lands“.
Það er þegar búið að leggja hana fram fjórum sinnum á undanförnum þremur árum. Katrín Júlíusdóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar lögðu tillöguna fram á síðasta þingi vorið 2015 og einnig því þarsíðasta. Á síðasta kjörtímabili var þessi tillaga lögð fram af Magnúsi Orra Schram, Skúla Helgasyni, Birgittu Jónsdóttur, Þór Saari og fleirum í mars 2012 og aftur ári síðar.
Enginn þeirra 17 þingmanna sem hafa lagt nafn við tillöguna virðist hafa skilið hvað hann var að leggja fram. Svonefnt „vistvænt“ eða „endurnýjanlegt“ eldsneyti ber engin eldsneytisgjöld; ekki kolefnisgjald, ekki vörugöld sem lögð eru á bensín, ekki sérstakt vörugjald sem lagt er á bensín og ekki heldur olíugjald.Þessi gjöld voru felld niður af „vistvæna“ eldsneytinu árið 2011, rúmu ári áður en þingsályktunartillagan um að fella þau niður kom fyrst fram.
Þessi mikilvæga tillaga frá Katrínu og félögum hlýtur að koma fram í fimmta sinn áður en yfirstandandi þingi lýkur.