Föstudagur 29. janúar 2016

Vefþjóðviljinn 29. tbl. 20. árg.

Aligoté, litla hvítvínsþrúga Búrgundar, finnst ekki í hillunum hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Vinstri menn vilja ekki fagna fjölbreytninni.
Aligoté, litla hvítvínsþrúga Búrgundar, finnst ekki í hillunum hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Vinstri menn vilja ekki fagna fjölbreytninni.

Það eru ekki litlar hörmungar sem geta dunið á landsmönnum ef öðrum en ríkinu verður treyst til að selja þeim áfengi í smásölu. Einkaaðilar mega ennþá selja drykki á börum þótt líklega sé öruggast að ríkið taki það yfir eins og annað.

Í gærkvöldi gerði Stöð 2 frétt um þann „freistnivanda“ sem margir yrðu fyrir, ef áfengi yrði selt í matvöruverslunum. Fréttamaður gekk alvarlegur um í stórmarkaði og vitnaði til nýlegrar greinar Stefáns Ólafssonar félagsfræðiprófessors, sem sagði að „freistnivandi áfengissjúkra eykst með áfengi í matvörubúðum, sem sumar eru opnar allan sólarhringinn“.

Svo var farið og rætt við lækni hjá SÁÁ um freistnivandann.

Ekki er víst hvers vegna Stefán Ólafsson hefur áhyggjur af næturopnun stórmarkaðanna og hættunni á því að menn falli í freistni og kaupi sér bjórdós um miðja nótt. Í því frumvarpi sem haldið hefur verið í gíslingu mánuðum saman á Alþingi segir: „Afgreiðslutími skal ekki vera lengri en frá kl. 9.00 að morgni til kl. 20.00 að kvöldi.“ Auk þess er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að sveitarfélög geti ákveðið að hámarkssölutími á dag verði allt að þremur klukkutímum styttri en þetta. Þannig að áfengissölu yrði alltaf að ljúka í síðasta lagi klukkan átta.

En auðvitað er skiljanlegt að vinstrimenn vilji halda frumvarpinu í gíslingu í þinginu. Þeir eru almennt lítið hrifnir af viðskiptafrelsi og vilja að sem stærstur hluti viðskiptalífsins sé höndum hins opinbera. Og þeir vita að stór hluti landsmanna heldur að þetta tiltekna mál sé það eina sem þingmönnum stjórnarflokkanna dettur í hug í frjálslyndisátt, og vilja halda því þannig.