Vefþjóðviljinn 25. tbl. 20. árg.
Við fyrstu sýn virðist augljóst að menn geti varla sett sér auðveldara markmið en að létta sig. Til þess þarf eiginlega ekki að gera neitt. Borða lítið í nógu langan tíma og björninn er unninn.
Með sama hætti virðist augljóst að stjórnmálamaður gæti varla tekið að sér auðveldara verk en að skera niður ríkisútgjöld. Þau eru ákveðin í fjárlögum frá ári til árs. Það þarf ekki að samþykkja sérstök lög um „lækkun fjárveitinga“. Ef útgjöld eru ekki nefnd í fjárlögum verða þau ekki greidd.
Þetta virðist hvort tveggja ákaflega einfalt. En eins og menn vita vefst hvort tveggja ákaflega fyrir þeim sem reyna. Milljónir manna reyna árangurslaust að létta sig án þess að hafa annað upp úr því en sífellda svengd og svo vonbrigði þegar stigið er á vigtina. Af og til komast menn til valda með atkvæðum hægrisinnaðra kjósenda og einhverjir þessara stjórnmálamanna ætla sér í raun og veru að skera ríkisútgjöldin niður, en ekkert gengur. Yfirleitt gerist ekki meira en það hægist örlítið á útgjaldaaukningunni. En raunverulegur niðurskurður sést næstum aldrei, svo máli skipti. Þess vegna er ríkissjóður nær allra vestrænna ríkja ótrúlega skuldugur, en aldrei er tekið á vandanum.
Mörg sömu vandamálin standa í veginum á báðum stöðum. Freistingar eru úti um allt en ávinningurinn, í hvert sinn sem menn standast eina þeirra, virðist svo lítill. „Verð ég nokkuð grannur við það sleppa þessari tebollu?“ hugsar sá sísvangi með sér. „Hverju breytir það í raun fyrir ríkið hvort ég sker niður um tuttugu milljónir hjá þessari úthlutunarnefnd myndlistarmanna?“ hugsar menntamálaráðherra á sama tíma. „En ef ég fæ mér tebolluna líður mér þó vel rétt á meðan. Og svo er hún alls ekki eins fitandi og snúður með sírópi hefði verið“, bætir sá svangi við í huganum. „Ef ég læt myndlistarmennina fá peningana slepp ég þó við eina leiðindaumfjöllun í Ríkisútvarpinu og fríblöðunum“ hugsar menntamálaráðherrann á sama tíma. „Katrín Jakobsdóttir hefði ábyggilega eytt enn meira, svo þetta er ekki svo slæmt“ bætir hann við.
Bæði málin eru afgreidd. Tebollan rennur ljúflega niður. Fjárveitingin helst óbreytt og menntamálaráðherra fær boðskort næst þegar einhver liggur allsber í kassa og kastar þar upp, til að túlka það hvernig samfélagið þrengir að nútímamanninum svo hann kúgast.
Ekki veit Vefþjóðviljinn hvernig menn eiga að bera sig að til þess að léttast. Skapstyrkur og sannfæring hlýtur þó að skipta þar máli. En hann veit að hægrisinnaðir stjórnmálamenn ná engum árangri nema þeir geri upp við sig að þeir forðist ekki gagnrýni heldur muni svara henni fullum hálsi og beygja ekki af leið vegna hennar. Ef þeir reyna að samsinna gagnrýninni, forðast átök og umdeildar ákvarðanir, eru þeir búnir að vera.