Vefþjóðviljinn 22. tbl. 20. árg.
Sjálfstæðisflokkurinn er samkvæmt nýjustu skoðanakönnun kominn undir 20% fylgi.
Hvað ætti hann að gera að til sýna kjósendum að hann sé í raun borgaralegur hægriflokkur sem treystir venjulegu fólki til að taka grundvallarákvarðanir í lífi sínu, semja um eigin mál og ráðstafa eignum sínum eins og það vill?
Jú, besta leiðin er sú sem flokkurinn hefur ákveðið að fara:
Hrófla ekkert við því sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir lét leiða í lög.
Halda áfram þeirri stefnu sem fylgt hefur verið frá árinu 2008, að tala helst ekki fyrir hægrisjónarmiðum eða verja það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir.
Taka undir allar vinstritillögur sem heyrast, telja þær áhugaverðar, spennandi og vel koma til greina.
Láta engin þingmannamál komast á dagskrá nema þau séu frá Pírötum.
Alls ekki má efast opinberlega um heimsmynd Pírata. Það getur ekki verið leiðin til að fá fólk, sem ætlar að kjósa þá, til að hugsa sig betur um.
Sérstaklega mikilvægt er að taka undir alla gagnrýni á Alþingi og starfshætti þess.
Láta ákvarðanir og jafnræði í útlendingamálum ráðast á facebook, þangað til ný lög, samin af stjórnarandstöðunni, geta tekið gildi.
Halda óhögguðum reglum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, vinna kynjuð fjárlög og gera átak í kennslu í kynjafræði í skólum.
Gæta þess að láta engan halda að menn hafi áhyggjur af fullveldi landsins. Það er bara eitthvað undarlegt hugtak sem enginn hefur áhuga á.
Standa dyggan vörð um úthlutunarkerfi þar sem listamenn veita hverjir öðrum opinbert fé. Þar má alls ekki gera neinar breytingar.
Ekki má heldur styggja þá í Efstaleiti 1. Það gæti orðið til þess að þeir beittu Ríkisútvarpinu í pólitísku skyni.
Gæta þess að frá ráðherrum komi ekki annað en embættismenn hafa lagt til. Nema það sé að utan. Þá er það í lagi.
Láta sem fæst í störfum stjórnarinnar benda til þess að vinstristjórnin hafi farið frá völdum vorið 2013.
Ef menn halda þessu áfram, eins og þeir hafa gert síðustu ár, þá hlýtur fylgistapið að fara að snúast við.
Meira af því sama, er örugglega leiðin.