Vefþjóðviljinn 21. tbl. 20. árg.
Það er vissulega þannig að þeir sem standa að ríkisstjórn, eru í stjórnarmeirihluta á þingi, þurfa að sætta sig við ýmislegt sem fylgir því að taka ákvarðanir með að minnsta kosti 31 öðrum.
En þar með er ekki sagt að þeir þurfi að gera rökin fyrir verkum sem þeir eru gersamlega ósammála að sínum.
Brynjar Níelsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins er varla fylgjandi ríkisrekstri á fjármálafyrirtækjum. Engu að síður gerir hann rök samfélagsbankamanna að sínum í pistli á Pressunni í vikunni þar sem hann grípur til varna fyrir það undur að skattfé Íslendinga sé lagt í einhvers konar byggðastofnun austur í Asíu, svokallaðan Innviðafjárfestingarbanka.
Stofnun bankans er hluti af þróunarsamvinnu flestra vestrænna ríkja til að styrkja fjárfestingar í Asíu. Með þátttöku okkar er opnað fyrir að íslensk fyrirtæki geti haslað sér völl á þessum svæðum þar sem efnahagslegur vöxtur er hvað mestur í heiminum. Í því geta falist miklir hagsmunir fyrir Ísland.
Þær smávægilegu fjárveitingar sem hafa farið til greiðslu á skuldbindingum Íslands hefur alþingi samþykkt með fjáraukalögum 2015 og fjárlögum fyrir 2016. Ólíklegt er að við þurfum að greiða nema um fimmtung af 2.3 milljarða króna skuldbindingu og það á fimm árum.
Trúir Brynjar orði af því sem hann skrifaði þarna? Eru milljarðar af skattfé almennings bara smápeningar? Telur hann æskilegt að stjórnmálamenn greiði götu einkafyrirtækja í gegnum ríkisbanka? Er það góð „þróunarsamvinna“ að vestræn ríki ryðjist með ríkisbanka inn í fjarlæg lönd með slík markmið? Er þörf á slíkri byggðastofnun þar sem efnahagslegur vöxtur er hvað mestur?