Laugardagur 9. janúar 2016

Vefþjóðviljinn 9. tbl. 20. árg.

Nýr rafbíll rann út á göturnar hvern virkan dag síðasta árs. Skattaívilnun vegna rafbíla hleypur á milljónum fyrir hvern bíl.
Nýr rafbíll rann út á göturnar hvern virkan dag síðasta árs. Skattaívilnun vegna rafbíla hleypur á milljónum fyrir hvern bíl.

Það er athyglisvert að 268 nýir rafbílar voru seldir hér á landi á síðasta ári. Hér er átt við hreina rafbíla án bensínvélar. Að auki voru seldir 398 bílar sem hafa einhvers konar rafmótor auk bensínvélar.

Hreinu rafbílarnir eru því um 2% nýrra bíla. Það er auðvitað ekki mjög hátt hlutfall en ekki er lengur um nokkra bíla að ræða heldur rann nýr rafbíll út á göturnar hvern virkan dag síðasta árs. Skattaafsláttur vegna kaupa þessara bíla hleypur raunar á milljónum. Ríkið gefur kaupanda rafbíls sem kostar 8 milljónir í innkaupum allt að 5 milljónir króna í endurgreiðslu vörugjalda og virðisaukaskatts. Eins og er leggja eigendur rafbíla heldur ekkert til vegakerfisins eins og aðrir bíleigendur gera við eldsneytiskaup. Í þessu er auðvitað engin sanngirni.

En þessi þróun hefur strax þau áhrif að bílarnir falla ekki lengur allir í þann flokk að vera með útblástursrör. Að minnsta kosti er útblásturinn vegna orkuframleiðslu fyrir rafbílinn ekki lengur beint frá bílnum sjálfum heldur uppi á Hellisheiði eða jafnvel úti í Evrópu eftir að íslensk orkufyrirtæki fóru að skipta á upprunavottorðum raforku við evrópsk kola-, olíu- og gasorkuver.

Það er spurning hvaða áhrif þetta hefur á umræðuna um einkabílinn. Verða menn jafn andsnúnir honum og áður? Ætla græningjar til dæmis áfram að mæla fremur með Dieselstrætó en rafbíl? Hvað segja Hjálmar Sveinsson og hinar lífsstílslöggurnar í borgarstjórn um það?