Föstudagur 8. janúar 2016

Vefþjóðviljinn 8. tbl. 20. árg.

Baldur Guðlaugsson lögfræðingur skrifaði athyglisverða grein í Morgunblaðið í gær og vakti athygli á að framkvæmanlegt er, sé vilji til slíks, að breyta stjórnarskránni þannig að við forsetakjör nú í sumar verði gerð krafa um að frambjóðandi fái meirihluta atkvæða til þess að ná kjöri, en ella skuli kosið að nýju.

Grein Baldurs er vönduð og skýr um það hvernig hægt væri að standa að slíkri framkvæmd. Það er síðan sjálfstæð ákvörðun hvort rétt sé að gera breytingar í þessa veru, og þá hvaða breytingar.

Oft hefur heyrst að rétt sé að gera þá breytingu að fái enginn frambjóðandi meirihluta atkvæða skuli kosið að nýju milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu. Þannig fáist frambjóðandi sem hljóti meirihluta atkvæða. Þessi tilhögun er notuð við val forseta Frakklands. Á móti hefur hins vegar verið bent á að forseti Íslands hefur engin völd og því sé óþarfi að gera kröfu um að hann sé kosinn með meirihluta atkvæða.

Ef menn ætla að breyta stjórnarskránni til þess að tryggja meirihlutastuðning að baki forseta er að mörgu að gæta. Eitt af því sem þarf að skoða, hvort sú leið að kjósa aftur milli tveggja efstu tryggir slíkan stuðning. Valinn yrði forseti sem í fyrri umferðinni fékk ekki helmings fylgi og fær ekki meirihluta atkvæða fyrr en kjósendum einhverra mótframbjóðenda hans er bannað að kjósa sinn mann, og þeir verða að velja milli tveggja sem þeir studdu ekki. Er það raunverulegur meirihlutastuðningur?

Ef menn vilja breyta stjórnarskrá þannig að enginn verði kosinn forseti nema hafa fengið meirihluta atkvæða þá væri ef til vill réttara að setja þá reglu að enginn teldist hafa náð kjöri nema hann fengi meirihluta atkvæða og svo skuli kosið að nýju þar til einhver fær þennan meirihluta. Svo mætti hugsanlega hafa reglurnar þannig að nýir frambjóðendur gætu bæst í hópinn við síðari kosningar.

Frakkar geta auðvitað ekki haft þennan hátt á, því forseti þeirra fer sjálfur með raunveruleg völd og því finnst þeim ekki koma til greina að hafa embættið ómannað um langan tíma. En í landi þar sem forsetinn fer ekki persónulega með nein af þeim völdum sem stjórnarskráin segir að „forseti“ hafi, væri þetta alveg framkvæmanlegt. Hvort menn vilja svo fara slíka leið er annað mál.