Vefþjóðviljinn 7. tbl. 20. árg.
„Meirihlutaræði“ er mörgum mikið áhyggjuefni. Þrír þingmenn Pírata hafa til að mynda af því talsverðar áhyggjur að þeir hafi ekki sama vægi við atkvæðagreiðslur á alþingi og 38 þingmenn stjórnarflokkanna. Þess vegna telja þeir sig þurfa að grípa til „leiðinda“ eins og þeir orða það, líkt og málþófs.
Í forsetakosningum í sumar gefst minnihlutanum hins vegar færi á því að ná sínu fram. Hann gæti fengið sinn mann kjörinn með 25% atkvæða eða þaðan af minna.
En þá vilja menn það ekki, heldur krefjast meirihlutaræðis. Fram eru komnar alls kyns tillögur um hvernig megi fá meirihlutann til að kjósa nýjan forseta. Menn þurfi að merkja við marga frambjóðendur eða haldnar verðir fleiri umferðir þar til einhver nær meirihluta.
Jafnvel eru dregnar fram tillögur „stjórnlagaráðs“ vinstri flokkanna en í því ráði sátu einmitt tveir talnaglöggir menn sem hönnuðu kosningakerfið til „stjórnlagaþings“. Varð sú kosning eina verulega niðurlæging lýðræðisins í lýðveldissögunni þótt hæstiréttur hafi að lokum forðað landinu frá því að sitja uppi með skömmina þegar hann úrskurðaði kosninguna ógilda.
Egill Helgason starfsmaður Ríkisútvarpsins bendir á að tillögur „stjórnlagaráðs“ um forsetakjörið séu í raun „írska aðferðin“ þar sem menn merki við marga frambjóðendur. En voru ekki helstu mótbárurnar gegn núverandi stjórnarskrá þær að hún væri „dönsk“? Svona eins og réttarríki og helstu mannréttindi færu eftir stund og stað. Tókst þá ekki betur til með tillögur „stjórnlagaráðs“ en svo að ráðið skipti dönsku áhrifunum út fyrir írsk?