Vefþjóðviljinn 6. tbl. 20. árg.
Í upphafi ársins sagði Viðskiptablaðið frá því að harkalega hefði verið ráðist á þá Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson í sjónvarpi, síðasta dag síðasta árs.
Í hvaða fjölmiðli ætli þetta hafi verið?
Auðvitað Ríkisútvarpinu.
Og í hvaða dagskrárlið?
Stundinni okkar.
Í frétt Viðskiptablaðsins segir meðal annars:
Barnaþátturinn Stundin okkar skaut föstum skotum að forsætis- og fjármálaráðherra í hinu svokallaða „Stundarskaupi” sínu í gærkvöldi.
Þá hófst þáttur Ríkisútvarpsins á stælingu á hinni sígildu Stjörnustríðsopnun, þar sem talað var um hvernig átök hafa brotist út innan „velmegunarríkisins”. […]
Í opnunartextanum segir meðal annars:
„Uppreisnarmenn og konur hafa hreiðrað um sig í mikilvægum grunnstoðum mannlífsins og heimta það eitt að fá að lifa eðlilegu lífi fyrir sig og fjölskyldur sínar.
Skjótandi í myrkrinu ferðast æðstu yfirmenn hins nýstofnaða velmegunarríkis stjórnlaust um óravíddir alheimsins á hinu endurnýjaða, ógnarstóra og misskilda flotaskipi, „einkavæðaranum”.“
Þá eru forsætis- og fjármálaráðherra báðir sýndir sem persónur í Stundarskaupinu. Skyrta Bjarna Benediktssonar er merkt sem ‘Aðmíráll Icehot1’, en auk þess er Sigmundur Davíð í hlutverki grænu snigilslegu geimverunnar Jabba the Hutt.
Landspítalanum og RÚV tortímt
„Þessir læknar og hjúkrunarfólk, þau eru sívælandi! Aldrei ánægð með neitt!” segir Bjarni í þættinum, milli þess sem hann og Sigmundur Davíð hlæja illkvittnislega. „Það er svo gaman, það er svo gaman að rústa!”
Í næsta skoti er svo sýnt brot úr upprunalega Stjörnustríðsþríleiknum þar sem eyðileggingargeisla Helstirnisins (e. Death Star) er skotið af stað.
Því næst sést svo hvernig hann tortímir Landspítalanum. Í atriðinu sem á eftir kemur gereyðir geimskip Bjarna og Sigmundar svo húsnæði Ríkisútvarpsins í Efstaleiti.
Samkvæmt fréttinni kom einnig fram í þættinum að Árni Páll Árnason vildi fá brúnkukremið sitt aftur og að Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata hefði týnt sjampóinu sínu.