Fimmtudagur 31. desember 2015

Vefþjóðviljinn 365. tbl. 19. árg. 

Á R A M Ó T A Ú T G Á F A

Eins og stundum áður um þetta leyti hefur Vefþjóðviljinn ákveðið að safna saman nokkrum atriðum sem ekki skyldu hverfa með árinu inn í aldanna skaut.

Púströr ársins.
Púströr ársins.

Púströr ársins: Eftir ítrekaðar fyrirspurnir Sigríðar Á. Andersen þingmanns Sjálfstæðisflokksins viðurkenndi umhverfisráðuneytið loks að árlegur útblástur gróðurhúsalofttegunda frá framræstu landi er nær tvítugfaldur útblástur frá bílaflota landsmanna.

Friðun ársins: Ríkisstjórnin ákvað að friða allar aðgerðir vinstristjórnar Jóhönnu og Steingríms. Þær standa því allar ennþá, þegar aðeins rúmt ár er eftir af kjörtímabilinu. 

Prívatar ársins: Umræður á „Pírataspjallinu“ urðu of frjálsar og ábyrgðarlausar. Stjórnendur Pírata ákváðu því að búa til nýtt Pírataspjall, sem aðeins verði opið innvígðum Pírötum.

 Nýlenska ársins: Borgaryfirvöld ákváðu að framvegis héti ruslið í borginni „ekkirusl“.

Samanburður ársins: Hildur Eir Bolladóttir sagði í predikun á aðfangadagskvöld að til hafi orðið „nýr helgileikur í þessari aðventu“ því líkt og Kristur hefði verið nakinn í jötunni hefði Almar verið nakinn í glerkassanum. 

Tileinkun ársins: Á þjóðhátíðardaginn leggur forseti borgarstjórnar blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar. Sóley Tómasdóttir gerði það og sagðist tileinka hann spjallsíðunni beauty tips. Fjölmiðlar gerðu enga athugasemd, ekki frekar en þeir hefðu gert ef kransinn hjá Jóni hefði verið tileinkaður skattadegi Heimdallar.

Vísindaafrek ársins: Í síðustu borgarstjórnarkosningum fengu Vinstrigrænir einn borgarfulltrúa. Með samstilltu átaki tókst Sóleyju og Líf Magneudóttr að kljúfa borgarstjórnarflokkinn í tvennt.

Grunur ársins: Talið er mögulegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé í stjórnarandstöðu í borginni og eigi jafnvel nokkra borgarfulltrúa. Þetta er þó ekki víst. Það er þó talið víst að hann eigi formann Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Val ársins: Spjallarar vinstrimanna geta ekki gert upp við sig hvert þeirra Andra Snæs Magnasonar, Hildar Eirar Bolladóttur eða Katrínar Jakobsdóttur sé best fallið til þess að verða þjóðhöfðingi. Þeim kemur ekki til hugar að hugsanlega megi hægrimaður verða forseti. Um slíkt gæti aldrei orðið sátt.

Hugrekki ársins: Magnús Guðmundsson skrifaði leiðara í Fréttablaðið um að þingmenn hefðu samþykkt í atkvæðagreiðslu að hækka eigin laun. Þá hefðu launahækkanir „fokið í gegnum þingið“. Að vísu er það kjararáð sem ákveður laun þingmanna svo hugrekkið er allt Magnúsar.

Snakkarar ársins: Flestir nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ákváðu að afnema toll á innflutt snakk. Svo ákváðu þeir að gera það ekki. Loks ákváðu þeir að afnema tollinn.

Ráðherraræði ársins: Forstjóri Ríkisútvarpsins upplýsti að stjórnendur þess hefðu ekki unnið fjárhagsáætlanir stofnunarinnar í samræmi við gildandi lög, heldur samkvæmt lagabreytingum sem ráðherra hefði lofað að beita sér fyrir. 

Rökræða ársins: Björk Guðmundsdóttir sagði í erlendum fjölmiðlum að Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vildu eyðileggja íslenska náttúru og hálendi landsins og væru „rednecks.“

Leðjuslagur ársins: Jón Gunnarsson alþingismaður sagði að sér þætti Björk daufleg til augnanna á mynd sem birtist af henni með ummælunum, en á myndinni bar hún grímu.

Krafa ársins: Dagur B. Eggertsson krafðist þess að Jón bæði Björk afsökunar. Nú væri búið að fara yfir öll mörk í umræðu. Hann sá hins vegar ekkert að ummælum hennar um Bjarna og Sigmund.

Ranghugmynd ársins: Enn einu sinni dæmdi Hæstiréttur mann  í fangelsi fyrir „hefndarklám“. Ríkisútvarpið heldur hins vegar áfram að upplýsa fólk um að Björt framtíð sé búin að leggja fram frumvarp um að gera „hefndarklám“ refsivert. Verður ekki einhver í Efstaleiti að fara að segja Hæstarétti frá þessu?

Nauðsyn ársins: Næstum eins mikilvægt og að setja fleiri lagaákvæði um „hefndarklám“ er að setja eitt um „heimilisofbeldi“. Það er nefnilega heimilt að beita ofbeldi inni á heimilum… eða hvað?

Svigrúmfræði ársins: Stjórnvöld sögðu að því miður væri ekki „svigrúm“ til að lækka tryggingagjald. Þeim datt samt ekki í hug að skapa þá bara slíkt „svigrúm“, með því að skera niður ríkisútgjöld einhvers staðar.

Fáránleiki ársins: Blaðamaðurinn Benedikt Bóas skrifaði í Morgunblaðið að Bandaríkin væru „fáránlegt land“. Það „eina góða“ sem þau hefðu gefið „heiminum“ væri tónlistin. Og reglan um að beygja mætti til hægri á rauðu ljósi.

Spenna ársins: Enginn sér fyrir hvaða afstöðu Guðmundur Andri Thorsson tekur til helstu deilumála í vikulegum fréttablaðsgreinum sínum.

Erfðaskattbreyting ársins: Stjórnarmeirihlutinn ákvað að breyta reglum um erfðafjárskatt þannig að ekki yrði innheimtur erfðafjárskattur þegar góðgerðarfélög fengju arf. En honum datt ekki í hug að taka til baka erfðafjárskattahækkun ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms. Hún stendur enn.

Hagræði ársins: Borgaryfirvöld ákváðu að sorp skyldi sótt á 14 daga fresti í stað 10 daga. Samtímis ákváðu þau að fólk gæti nú fengið „spartunnu“, sem tekur 120 lítra, en hefðbundin tunna tók 240 lítra. Í ráðhúsinu hefur einhver reiknað út að þegar sorpið er tekið sjaldnar vilji fólk að tunnan sé líka minnkuð.

Botnleysi ársins: Helgi Hrafn Gunnarsson alþingismaður Prívata sagði að lögreglan leyfði sér „nú þegar botnlaust virðingarleysi fyrir réttindum landsmanna.“ Nei, það vildu líklega fáir búa í slíku lögregluríki ógnarstjórnarinnar. Merkilegt að maðurinn skuli ganga laus.

Snerpa ársins: Strax sama kvöld og hryðjuverkin voru framin í París voru íslenskir álitsgjafar búnir að athuga málið og komust að þeirri niðurstöðu að hér þyrfti engar breytingar að gera á stefnu stjórnvalda í neinu máli. Aðrir voru nákvæmlega jafn fljótir að kveða upp úr með það hverijr bæru ábyrgð á ódæðunum.

Neitunarvald ársins: Forseti Portúgals neitaði að leyfa sigurvegurum þingkosninga í landinu að mynda nýja ríkisstjórn. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vildi það nefnilega ekki.

Sjúkrasamlag ársins: Ákveðið var að breyta Íslandi í sjúkrasamlag fyrir heiminn.

Verkfall ársins: Birgitta Jónsdóttir lagði til að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í þingnefndum færu í „verkfall“ til að mótmæla því að ríkisstjórnin legði ekki fram fleiri ný lagafrumvörp.

 Vífillengja ársins: Guðmundur Andri Thorsson sagði í óvæntri blaðagrein að „við“ ættum ekki að hlusta á „úrtölumenn í loftslagsmálum“ því þeir hefðu „ekkert fram að færa annað en víifillengjur og útúrsnúninga“, enda væru þeir „alltaf að ganga erinda olíufélaga og auðhringa þessir rangnefndu íhaldsmenn og talsmenn óhófs, eyðingar og sóunar.“ Það er ekki slæmt að fá vikulegar hugvekjur þekktustu rithöfunda þjóðarinnar óumbeðið inn um bréfalúguna til að halda umræðunni á háu plani.

Sjónarmið ársins: Lagaprófessor sagði að fjölga þyrfti konum í Hæstarétti til að „sjónarmið kvenna“ kæmust að. Enginn spurði hver þau væru eða hvernig hálf þjóðin hefði farið að því að ná samstöðu um þau.

Sigur ársins: Franska tímaritið Charlie Hebdo tilkynnti að það væri hætt að teikna myndir af Múhameð spámanni.

Kynjahlutföll árisns: Ríkisútvarpið ræddi við sex einstaklinga um skipan nýs Hæstaréttardómara. Þeir töldu allir mikilvægt að skipa frekar konur en karla í Hæstarétt, til að jafna kynjahlutföllin. Þessir sex einstaklingar voru allir konur.

Kveðjugjöf ársins: Meirihluti Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstrigrænna og Bjartrar framtíðar ákvað að Reykjavíkurborg beitti Ísrael viðskiptaþvingunum. Dagur B. Eggertsson sagði síðar að þetta hefði verið kveðjugjöf til Bjarkar Vilhelmsdóttur sem var að hætta í borgarstjórn. Kannski blómvöndur hefði komið betur út?

Tillöguhvarf ársins: Iðnaðarráðherra hætti við að innleiða náttúrupassa.

Tillögufæðing ársins: Iðnaðarráðherra ákvað að stofna stjórnstöð ferðamála.

Hvarf ársins: Hefur einhver álitsgjafi,fréttamaður eða stjórnmálamaður rifjað upp athyglisverð orð Bjarkar Vilhelmsdóttur um velferðarkerfið síðan þau voru látin falla fyrir rúmlega ársfjórðungi?

Hagkvæmni ársins: Eygló Harðardóttir lagði til að hið opinbera veitti nokkrum milljörðum króna til byggingar um tvö þúsund „hagkvæmra og ódýrra íbúða“. Já, þessar íbúðir eru svo hagkvæmar að þær verða ekki byggðar nema til þess verði veitt milljörðum úr ríkissjóði.

Sjálfbærnivísindi ársins: Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor í sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands sagði í viðtali að nú sæju menn mikið streymi fólks frá hinum ýmsu Afríkuríkjum. Þetta væru ríki þar sem væri mikið „þjóðfélagslegt ójafnvægi vegna loftslagsbreytinga.“ Já, fólk flýr auðvitað Afríku vegna hitasvækjunnar þar en ekki vegna fátæktar og ófriðar.

Rótari ársins: Guðmundur Steingrímsson lagði til að formannsembætti Bjartrar framtíðar „róteraði“ milli þingmanna flokksins. Og þar sem það er einmitt forystan sem velur þingmennina þá yrði með þessu það snjalla fyrirkomulag að formaðurinn velur þingmennina og svo skiptast þingmennirnir á um að vera formaður.

Minnihlutamaður ársins: Árni Páll Árnason var kjörinn formaður Samfylkingarinnar með minnihluta atkvæða á landsfundi flokksins.

Innlegg ársins: Heiða Kristín Helgadóttir furðaði sig á því hvað Guðmundi Steingrímssyni hefði gengið illa með Bjarta framtíð, miðað við allt sem gert hefði verið fyrir flokkinn: „Mér finnst að hann hafi fengið ágætis tækifæri til að sanna sig og það er búið að leggja mikið í þennan flokk bæði risastórt, hérna svona, fylgi frá Besta flokknum og alls konar hluti…“ Fréttamenn spurðu ekki hvernig fylgi Besta flokksins hefði verið lagt inn í Bjarta framtíð.

Tilvera ársins: Heiða Kristín Helgadóttir sagðist vera „til í“ að verða formaður Bjartrar framtíðar. Sú tilvistarstefna varð hins vegar ekki útbreidd.

Kvótakóngar ársins: Baltasar Kormákur lagði til að settir yrðu kynjakvótar við úthlutun úr Kvikmyndasjóði. Illugi Gunnarsson tók samdægurs undir hugmyndina.

Launalækkunarkrafa ársins: Nýr rektor Háskóla Íslands krafðist þess að menntun yrði metin til launa. Með öðrum orðum, lægri laun fyrir lítið menntaða.

Fjöldamótmæli ársins: Ríkisútvarpið sendi mann á staðinn og sagði svo frá því að „á annan tug manna“ hefði komið saman á Lækjartorgi „á samstöðufundi með Grikkjum undir yfirskriftinni „nei“.“ Svo var spilað þegar fundarmenn hrópuðu slagorð.

Fundarástæða ársins: Ríkisútvarpið ræddi við Nönnu Hlín Halldórsdóttur, einn fundarmanna á samstöðufundinum og hún hafði þetta að segja: „Við erum náttúrulega hingað komin til að sýna samstöðu, þú veist, það er, við erum náttúrlega, ég veit ekkert alveg hvernig ástandið er þar, en ég held að það sé ótrúlega mikilvægt til þess að sýna að það sé þú veist að það sé hægt að kjósa líka um manns eigin líf, og að eins og að fjármálaöflin að þau séu ekki þau sem ráði heldur fólkið í landinu.“

Mannfjöldamótmæli ársins: Ríkisútvarpið sagði frá því að við þingsetningu hefðu mótmælendur komið saman við þinghúsið og látið í sér heyra. Þeir munu hafa verið tíu talsins. Í frétt Ríkisútvarpsins var sérstaklega tekið fram að „einn“ maður hefði verið með lúður og spilað „hástöfum“. Svo sagði í fréttinni að mótmælendur segðu að þjóðfélagið væri í sárum en þrátt fyrir það færi nú „ríkisstjórnin í frí til þess að grilla og tjilla“, og „að heilbrigðiskerfið væri á heljarþröm, en ráðamenn væru í algjörri afneitun, stjórnarskránni væri ennþá haldið í gíslingu, umhverfismál væri í ólestri, siðblinda og spilling léku lausum hala.“

Aldarafmæli ársins: Þann 19. júní var öld liðin frá því efnalitlir karlmenn, vistráðnir og þeir sem skulduðu sveitarstyrk fengu kosningarétt. Hvorki ríkið, verkalýðsfélög né nútímaleg stórfyrirtæki sáu ástæðu til að minnast þess.

Framlag ársins: Stjórnvöld ákváðu, þrátt fyrir að ekkert „svigrúm“ væri til skattalækkana, að leggja hálfan milljarð króna í nýjan „jafnréttissjóð“. Og af því að þeim fannst ekki nægileg femínísk innræting í skólakerfinu tóku þau sérstaklega fram að sjóðurinn ætti að styrkja kennslu í „kynjafræði“.

Þjóð ársins: Með skömmum fyrirvara var efnt til hátíðar til að minnast þess að 35 ár voru liðin frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands. Yfirskrift hátíðarinnar var „Þjóðin sem valdi Vigdísi“. Þessi 66% sem mættu á kjörstað árið 1980 og kusu aðra en Vigdísi teljast ekki með.

Framlenging ársins: Ríkisstjórnin ákvað að áfram skyldi unnið að „kynjaðri fjárlagagerð“. Annars hefði fólk getað haldið að  vinstristjórnin væri hætt.

Anarkisti ársins: Jón Gnarr skrifaði grein og sagðist vera anarkisti. Enginn fjölmiðill spurði  hvað hann hefði gert á fjórum árum sem borgarstjóri til að minnka völd sveitarfélagsins yfir borgurunum.

Fundur ársins: Ýmsir opinberir aðilar komu að „Fundi fólksins“ sem haldinn var á þremur dögum í júní. Dagskráin fór bil beggja í pólitíkinni, enda hefði hið opinbera aldrei stutt þetta annars.

Tillaga ársins: Ragnheiður Ríkharðsdóttir lagði til að í næstu þingkosningum yrðu eingöngu konur kosnar á þing.

Vonbrigði ársins: Knattspyrnuáhugamenn um allan heim urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar fréttir tóku að benda til þess að eitthvað hefði verið bogið við þá ákvörðun Alþjóðaknattspyrnusambandsins að halda heimsmeistaramót í knattspyrnu í því gamalgróna knattspyrnulandi, Qatar. Hverjum hefði getað dottið slíkt í hug?

Þjónustufyrirtæki árins: Strætó tók að sér að sinna samgöngumálum fatlaðra. Dagur B. Eggertsson missti margar vikur úr fjölmiðlum á sama tíma.

Leiðbeiningar ársins: Verkalýðsfélagið Hlíf sendi félagsmönnum atkvæðaseðil til að kjósa um verkfallsboðun. Með seðlinum fylgdu leiðbeiningar á þremur tungumálum þar sem félagsmönnum var sagt að segja já.

Umburðarlyndi ársins: Framsóknarmenn fengu ekki að komast upp með að velja mann með rangar skoðanir sem varamann í nefnd.

Höskuldur ársins: Ungfrú Kólumbía var valin ungfrú heimur. Með sömu nákvæmni og Höskuldur Þórhallsson varð formaður Framsóknarflokksins.

Útrás ársins: Íslenskir skattgreiðendur lögðu 24 milljónir króna til að reisa mosku í Feneyjum. Íslenskir ráðamenn urðu bálreiðir þegar Ítalir lokuðu henni.

Samstaða ársins: Bílstjórar á skólabílum fóru í verkfall. Ríkisútvarpið gerði frétt um að „einn“ faðir hefði ákveðið að aka sonum sínum ekki í skólann þann dag, til að sýna verkfallsmönnum samstöðu. Fréttamaður fór heim til föðurins og tók við hann viðtal.

Björn ársins: Björn Bjarnason, Bjössi.

Vörn ársins: Ragnheiður Elín Árnadóttir var gagnrýnd fyrir fjárfestingarsamning við fyrirtækið Marorku, „ívilnun til nýfjárfestinga“. Hún svaraði á Alþingi: „Ég ætla að fullyrða það hér og nú að þetta mál og þessi samningur hefði fengið nákvæmlega sömu afgreiðslu í tíð þriggja síðustu iðnaðarráðherra, þeirra Katrínar Júlíusdóttur, Oddnýjar Harðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.“ – Það er einmitt það sem menn ætluðust til þegar þeir kusu Sjálfstæðisflokkinn árið 2013.

Fræðimenn ársins: Fólk sem engan áhuga hefur á trúarbrögðum á ekki í neinum vandræðum með að úrskurða að þau séu öll jafn góð og friðsöm.

Afstaða ársins: Tvísýnt formannskjör fór óvænt fram í Samfylkingunni. Vefsíðan Eyjan.is sagði frá því að sama dag áttu þau Dagur B. Eggertsson, Össur Skarphéðinsson, Helgi Hjörvar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir það sameiginlegt að svara ekki skilaboðum. Þetta er auðvitað ekki fólk sem vill vera í fjölmiðlum.

Ríkisfyrirtæki ársins: Stjórnmálaflokkarnir.

Klukka ársins: Einar nýtur áfram fyllsta trausts.

Harka ársins: Loksins gáfust stjórnvöld ekki upp. Þau hvikuðu hvergi frá því að færa Þróunarsamvinnustofnun inn í utanríkisráðuneytið. Enda voru það embættismenn sem vildu það. 

Umræður ársins: Þingmaður Framsóknarflokksins sagðist andvígur því lagaákvæði sem segir að ríkið skuli verja 1% af byggingarkostnaði hvers opinbers húss til listskreytinga. Ríkisútvarpið efndi til umræðna um málið og fékk þau Katrínu Jakobsdóttur formann VG og Hlyn Helgason lektor í listfræði til að skiptast á skoðunum.

Vindmyllur ársins: Með matarsóun á eina hlið en plastpokanotkun á hina er ekkert grín að vera riddari.

Skörungur ársins: Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar var spurður hvernig hann myndi greiða atkvæði um ÁTVR-frumvarpið. Hann vildi ekki svara því og sagði: „Ég tjái mig aldrei um svona nema með atkvæði í þinginu.“ Því miður var hann ekki spurður hvernig hann myndi greiða atkvæði um eitthvert annað mál, til dæmis afturköllun inngöngubeiðnarinnar í Evrópusambandið.

Bit ársins: Skýrt var frá því í fréttum að krókódíll hefði bitið í hollenska knattspyrnumanninn Arjen Robben. Lítið sá á þeim hollenska en ekki kom fram hvernig dýrinu reiddi af.

Fjölmiðill ársins óskar lesendum sínum velgengni og góðvildar á komandi ári.

Gleðilegt ár.
Gleðilegt ár.