Helgarsprokið 15. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 319. tbl. 19. árg.

Það er engin nýbreytni í því fólgin þótt margir séu fljótir að draga ályktanir um mál sem þeir þekkja lítið til. Það þarf ekki voðaverk eins og þau sem unnin voru í París í vikunni.

Fáum dögum áður voru mjög margir mjög reiðir á Íslandi. Tvo daga í röð hafði dagblað birt fréttir af því að tveir menn hefðu verið kærðir fyrir nauðgun. Ekki mun hafa komið fram hvort mennirnir hefðu játað eða neitað eða hversu sterk sönnunargögnin gegn þeim væru. Blaðið tók hins vegar fram að lögreglan hefði ekki krafist þess að mennirnir yrðu settir í gæsluvarðhald.

Um þetta varð mikil umræða á „samfélagsmiðlum“. Fljótlega var boðað til mótmælafundar við lögreglustöðina. Í fréttatímum var lesið upp að mennirnir hefðu verið ásakaðir, ekki hefði verið farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim og að búið væri að boða mótmælafund við lögreglustöðina klukkan fimm.

Á boðuðum tíma mætti fjöldi fólks við lögreglustöðina og púaði á lögreglustjórann þegar hún ávarpaði hópinn. Síðar var eggjum kastað í húsið.

Um það hvað er rétt og rangt í málinu geta kærendurnir og hinir kærðu vitað. Lögreglan hefur svo leitað að sönnunargögnum og yfirheyrt fólkið, svo hún hefur sínar upplýsingar. Aðrir höfðu óstaðfestar fréttir í einu dagblaði. Það dugði hópi manna til að mæta á mótmælafund og kasta eggjum.

Það þarf því ekki að koma á óvart að margir hafi verið fljótir að greina rétt frá röngu þegar fréttir bárust af árásunum í París. Einhverjir þurftu ekki að bíða eftir fréttum af því hverjir hefðu verið að verki til þess að geta kveðið upp úr um næstu gagnráðstafanir sem þyrfti að grípa til. Aðrir þurftu ekki að fá neinar fréttir heldur, til þess að geta fullyrt að engu þyrfti að breyta á Vesturlöndum og að þeir sem hefðu aðra skoðun á því væru fávitar. Það eina sem nú þyrfti að gera væri að tryggja að enginn kæmist upp með að „nýta sér“ atburðina til að mæla með einhverjum breytingum á reglum eða stefnu stjórnvalda.

Það hlýtur að vera þægilegt að hafa svona skýra heimsmynd. Það styttir að minnsta kosti biðina eftir að koma næstu athugasemd á framfæri á „samfélagsmiðlunum“.

Þegar atburðir sem þessir verða, eru margir oft fljótir að segja að nú megi ekki láta hryðjuverkamennina sigra. Þar eiga þeir ekki fyrst og fremst við að komið verði í veg fyrir frekari voðaverk, heldur fremur að Vesturlönd breyti engu í reglum sínum eða háttum vegna voðaverkanna. „Þá fyrst hafa hryðjuverkamennirnir sigrað“, segja margir og auðvitað er það á margan hátt skiljanlegt. Við ætluðum að hafa reglurnar svona og svona, og ef einhverjir geta neytt okkur til að breyta þeim, þá hafa þeir unnið og við tapað. Þetta er skiljanleg röksemdafærsla.

En hún er ekki nauðsynlega rétt. Og ef menn horfa á eigið líf þá fara þeir ekki endilega sjálfir eftir slíkri röksemdafærslu. Flestir læsa útidyrunum hjá sér. Hafa þeir þá tapað fyrir hugsanlegum innbrotsþjófi? Já kannski, en flestum finnst slík „tap“ vera betra en að fá óboðna gesti. „Við skulum ekki láta þessa nauðgara neyða okkur til að opna neyðarmóttöku“, segir auðvitað enginn. „Við skulum ekki láta einhverja ofbeldismenn neyða okkur til að hafa gæslu á útihátíðinni okkar“, er ekki skynsamlegt heldur. „Við skulum ekki láta einhverja flugræningja neyða okkur til að taka upp vopnaleit í flugstöðvum“, er sjaldheyrð krafa á flugvöllum, jafnvel þótt allir viti að yfirgnæfandi meirihluti farþega sé óvonaður og ætli ekki að ná vélinni á sitt vald.

Og auðvitað á ekki að fara á taugum. Það á ekki að afnema frjálst þjóðfélag um leið og illmenni byrja að herja á það. Svo haldið sé áfram með dæmið um varnir gegn flugránum þá láta menn sér nægja að leita að vopnum á farþegum og gegnumlýsa farangur. En þeir hafa farþegana ekki járnaða niður í sætin, þótt líklega sé hægt að rökstyðja að í því fælist enn meira öryggi gegn því að einhver úr farþegahópnum ræni vélinni.

Langtímaviðbrögð við ógnum eiga að vera gerð af skynsemi og raunverulegri þekkingu. Það á ekki að bregðast við af taugaveiklun þess sem telur alltaf að banna verði allt það sem einhver getur misnotað. En það á ekki heldur að bregðast við eins og sannfærður einfeldningur sem lætur allt sem gerist sem vind um eyrun þjóta. Það að ákveða fyrirfram að skipulögð hryðuverk kalli nauðsynlega á gerbreytt þjóðfélag, og að ákveða fyrirfram að þau kalli ekki á neinar raunverulegar breytingar á neinu, er hvort tveggja mjög óskynsamlegt.

En það er eitt sem menn geta fullyrt án þess að bíða lengi. Voðaverk eins og þessi eru á ábyrgð þeirra sem fremja þau og skipa fyrir um þau. Ekki annarra.