Laugardagur 14. nóvember 2015

Vefþjóðviljinn 318. tbl. 19. árg.

Hverjir hafa unnið þegar jafnvel góða fólkið gerir kröfu um að aðeins réttar skoðanir séu birtar?
Hverjir hafa unnið þegar jafnvel góða fólkið gerir kröfu um að aðeins réttar skoðanir séu birtar?

Samfélagsmiðlarnir.

Án þess að nokkuð lægi fyrir um ábyrgð á fjöldamorðunum í París í gærkvöldi hófst mikil keppni í sjálfsupphafningu milli tveggja hópa.

Annars vegar var það fólkið sem flokkar menn með einföldu litaprófi og kannski einni aukaspurningu um trúmál. Það taldi einboðið að benda á hryðjuverkamennina og skrifa svo hróðugt: Hvað sögðum við?

Hins vegar var góða fólkið mætt til að hefja sig upp á kostnað rasistanna. Twitter er helsti vettvangur góðmennanna. Þar tístu þau í gríð og erg um að eyða ætti rasískum ummælum í athugasemdakerfum fjölmiðla og á samfélagsmiðlum. Að því búnu birtu þau endursögn eða skjáskot af slíkum ummælum! Sjáið hvað ég fann ljótan rasista. Er ég ekki miklu betri manneskja en hann? Ást og friður. #tjaraogfiðurárasistann.

Nú ber fjölmiðlum auðvitað engin skylda til að birta hvað sem er í athugasemdakerfum sínum og hver sem er má auðvitað skora á hvern sem er að birta ekki hitt og þetta.

En þessi stífa krafa um að þagga niður í fólki er engu að síður ónotaleg. Hverjir verða teknir fyrir næst? Hvað varð um réttinn til að hafa rangt fyrir sér?