Vefþjóðviljinn 317. tbl. 19. árg.
Ríkisstjórn Portúgals féll í vikunni. Raunar féll hún í kosningum fyrir rúmum mánuði en forseti landsins neitaði sigurvegurum kosninganna um að fá að mynda ríkisstjórn. Minnihlutinn fékk að mynda stjórn en meirihlutinn ekki.
Og hver var skýringin?
Sigurvegarar kosninganna eru á móti efnahagstillögum forystu Evrópusambandsins. Þeir eru líka á móti evrunni.
Þetta finnst forseta Portúgals alveg svakalegt. Svona menn mega ekki mynda ríkisstjórn. Hvað sem kjósendur segja.
Svona er þetta að verða mjög víða. Elítan á hverjum stað, eða þeir sem vildu að þeir væru elíta, þykjast geta ákveðið hverjir eru „stjórntækir“ og hverjir ekki. Lýðræðishugsun þeirra nær ekki lengra en svo.
Íslenskir Evrópusambandssinnar mæta reglulega í fréttir og umræðuþætti Ríkisútvarpsins og tala um hversu Íslendingar muni hafa mikil áhrif í Brussel ef þeir afsala fullveldi sínu þangað. Í raunveruleikanum fá portúgalskir kjósendur helst ekki að velja ríkisstjórn í Portúgal, nema hún samþykki það sem þeir í Brussel hafa ákveðið.
Dæmið í Portúgal hljómar auðvitað einstaklega illa, en krafan um að ákveðin atkvæði séu ekki talin með er vaxandi meðal álitsgjafa og valdamanna vestrænna lýðræðisríkja.
Taka má Svíþjóð sem dæmi. Það er nú lýðræðisríki í nágrenni við Ísland. Þar situr vinstristjórn við völd. Það er réttlætt með því að vinstriflokkarnir hafi fengið fleiri atkvæði en hægriflokkarnir í síðustu kosningum. En til þess að komast að þeirri niðurstöðu byrja menn á því að telja ekki með rúmlega 13% atkvæði sem flokkurinn Svíþjóðardemókratar fengu í kosningunum.
Nú er raunar vafasamt að Svíþjóðardemókratarnir séu hægriflokkur þótt búið sé að merkja hann sem öfgahægriflokk, en það er ekki aðalatriðið hér. Það sem er merkilegt er að þeir sömu og segja að þeir séu svo langt til hægri að það séu hreinar öfgar, vilja ekki telja atkvæðin þeirra með þegar skoðuð eru vinstriatkvæði og hægriatkvæði. Og þá munar ekkert um að segja að flokkur sem 13% Svía kjósa, megi bara ekki hafa áhrif á stjórn landsins.
Portúgal er víða.