Vefþjóðviljinn 310. tbl. 19. árg,
Samfylkingin hefur nú hafið söfnun fjárstyrkja meðal félagsmanna sinna. Auðvitað er sjálfsagt að fólk styðji með fjárframlögum þann stjórnmálaflokk sem stendur því næst.
En þegar fréttir berast af því að Samfylkingin safni fjárstyrkjum þá rifjast upp mál sem ótrúlega sjaldan er nefnt. Flestir muna líklega eftir því að fyrir kosningarnar 2009 var því lekið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið háa fjárstyrki frá nokkrum fyrirtækjum, sem þá voru skyndilega mjög illa þokkuð, eftir að hafa verið lofsungin í mörg ár á undan. Frétamenn fjölluðu um þessi mál dag eftir dag, forystumenn Sjálfstæðisflokksins sögðust ætla að skila styrkjunum og fylgi flokksins minnkaði með hverri fréttinni.
En það sem fjölmiðlamenn höfðu engan áhuga á og hafa næstum aldrei haft, er að Samfylkingin fékk í raun sambærilega styrki. Það voru ekki daglegar fréttir um þá styrki. Enginn krafðist þess að Samfylkingin „skilaði“ þeim styrkjum. Fréttamenn og álitsgjafar rifja þetta sjaldan eða aldrei upp.
Hvers vegna á Samfylkingin ekki að „skila styrkjunum“, fyrst þess var krafist af Sjálfstæðisflokknum?
Annað sem fréttamenn höfðu engan áhuga á var að velta upp hver gæti hafa lekið fréttunum um styrkina til Sjálfstæðisflokksins. Hverjir töldu svona mikilvægt vorið 2009 að Sjálfstæðisflokkurinn fengi slæma kosningu?
Ef hlutverkum yrði skipt, ef Samfylkingin hefði í ofboði lofað að skila styrkjunum og hefði síðan verið að borga þá niður, en Sjálfstæðisflokkurinn hefði engu skilað, hversu oft ætli fréttamenn og álitsgjafar hefðu nefnt það? Hversu oft hefðu forystumenn Sjálfstæðisflokksins verið spurðir hvort þeir ætlaðu ekki örugglega líka að skila styrkjunum?
Og ef hlutverkum yrði skipt, ætli Samfylkingarmenn myndu þá ekki segja að þeir myndu engum styrkjum skila nema aðrir gerðu slíkt hið sama.