Vefþjóðviljinn 301. tbl. 19. árg.
Eitt af því sem talið hefur verið íslensku krónunni til tekna er að við efnahagsáföll lækki gengi hennar og þar með kostnaður útflytjenda. Og þar með hverfi atvinnuleysi sem fylgi jafnan efnahagslægðum undraskjótt.
Menn benda á að með öðrum gjaldmiðli væri slík aðlögun ekki möguleg með sama hraða og skarpt fall krónunnar leiðir af sér.
En hvers vegna ættu launamenn ekki að vera til viðræðu um að lækka laun sín með öðrum hætti en gengisfellingu krónunnar þegar þeir standa að öðrum kosti frammi fyrir því að störf þeirri hverfi annars?
Gæti það verið vegna þess að samningum um kaup og kjör er miðstýrt ofboðslega hér á landi?
Hinir svonefndu aðilar vinnumarkaðarins eru engu að síður fremur andvígir krónunni.
Kannski væri þó raunhæfara að notast við aðra mynt eða myntir ef þunglamaleg miðstýringarbatterí á borð við SA, ASÍ og nú SALEK væru einfaldlega ekki til.