Vefþjóðviljinn 293. tbl. 19. árg.
Í síðustu viku var vikið að því hér að Náttúruverndarsamtök Íslands vilja að Íslendingar dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fram til ársins 2030. Samtökin sjálf hafa hins vegar engar tillögur lagt fram um hvernig ná má því markmiði. Engar. Hvorki raunhæfar né óraunhæfar.
Ómar Ragnarsson náttúruunnandi og rallýkappi með meiru ritaði grein um þessi efni í Morgunblaðið á laugardaginn. Líkt og landsmenn þekkja er Ómar er oft hugmyndaríkur um hvers kyns mál. En í greininni leggur Ómar ekkert gagnlegt fram um það hvernig nálgast megi markmiðið um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.
Ómar hefur hins vegar allt á hornum sér yfir því að nú sér komnar fram réttari upplýsingar um raunverulega losun gróðurhúsalofttegunda af manna völdum hér á landi en áður hafa verið birtar á einum stað. Ómar vill hanga í þeim röngu tölum sem miðað var við í svonefndri Kyoto-bókun þar sem losun frá framræstu votlendi er ekki talin með fyrir viðmiðunarárið 1990.
Nú hafa menn hins vegar lagt gott mat á losunina frá framræstu landi, bæði íslenskir vísindamenn og Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC). Þær tölur má finna bæði í svari umhverfisráðherra til Össurar Skarphéðinssonar síðasta haust og svo skipulega framsettar ásamt öðrum losunartölum Íslands í svari umhverfisráðherra til Sigríðar Á. Andersen fyrr í þessum mánuði.
Í svari ráðherra til Össurar segir beinlínis að þessar tölur hafi fram til þessa ekki verið teknar með í útblástursbókhald Íslands vegna Kyoto-bókunarinnar.
Þannig er losun frá framræstu landi t.d. ekki tekin inn í losun Íslands viðmiðunarárið 1990 sem grunnur til að reikna út Kyoto-skuldbindingar Íslands.
Skýrara getur þetta ekki verið. Losuninni frá framræstu landi hefur verið sleppt hingað til.
Það er auðvitað sérstakt umhugsunarefni hvers vegna menn eins og Ómar bregðast svo illa við því að búið sé að leggja raunhæft mat á losun frá framræstu votlendi hér á landi.
Hvers vegna vilja menn hanga í gömlu Kyoto-tölunum þegar leiðréttar tölur eru komnar fram?
Ekki er slíkt skapandi bókhald um þessi mál líklegt til að auka áhuga og traust almennings á þeim aðgerðum sem stjórnvöld boða til að draga úr losuninni.