Vefþjóðviljinn 284. tbl. 19. árg.
Þetta er komið út í ógöngur. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins eru farnir að draga upp gamla launaseðla í beinni sjónvarpsútsendingu og svara fyrir sjö ára gamalt flakk sitt um lýðnetið.
Þetta veit ekki á gott. Það er einhver varnarlína um einkamál manna að bresta þarna.
Nú geta stjórnmálamenn alveg fundið hjá sér hvöt til að deila allskyns einkamálefnum sínum með þjóðinni, birt yfirlit yfir eigur sínar og tekjur, dreift myndum úr fjölskyldualbúminu, sagt frá alls kyns persónulegri reynslu og áföllum og svo framvegis. En þeir eiga að gera það á eigin forsendum. Ekki hrekjast til þess undan óhljóðum og hótunum frá blogglúðrasveitinni.
Hingað til hafa íslenskir stjórnmálamenn ekki verið krafðir mikilla svara um einkalíf sitt. Ekki frekar en aðrir landsmenn. Það hefur bara verið ágætt. Það hefur verið almenn regla á íslenskum fjölmiðlum að láta fólk í friði með það sem fer fram innan veggja heimilis.
Vissulega töldu allnokkrir einstaklingar að eftir þrot nokkurra banka, þann lítilfjörlega viðburð, mætti framvegis grýta lögregluna, leggja eld að alþingishúsinu, gera aðsúg að lögreglustöðinni, elta stjórnmálamenn heim að dyrum og gera hróp að fjölskyldum þeirra, að því ógleymdu að stela öllum persónuupplýsingum um alla og dreifa þeim. En þetta var misskilningur.
Réttarríkið, eignarréttur, friðhelgi einkalífs og allir hinir hornsteinar lýðveldisins voru alveg óháðir því hvernig rekstur bankanna gengi. Fyrirtæki koma og fara, síldin kemur og fer, hafísinn og eldgosin en lýðræðislegri stjórnskipan er einmitt ætlað að standa slíkt af sér. Henni er ætlað er koma í veg fyrir að í skjóli hvers kyns óvæntra atburða reyni óvandaðir einstaklingar að leysa þjóðfélagið upp í ofbeldi og æsingi.
Mikið væri gaman að geta sagt frá því þegar frá líður að það eina sem slíkir menn náðu að hrinda um koll á Íslandi eftir að fjármálakerfið gufaði upp árið 2008 var jólatré á Austurvelli. Það er ekki aðeins sögulega lítilfjörlegur árangur hjá þessum mönnum heldur lýsir verkið þeim svo vel.