Vefþjóðviljinn 262. tbl. 19. árg.
Píratar standa undir nafni að því leyti að þeir telja að ekki eigi að liggja refsingar við þjófnaði sem fer fram á netinu. Þeir virðast telja netið handan mannlegs samfélags og eigi þar af leiðandi að vera undanþegið almennum lögum og siðferðiskröfum. Eignarrétturinn, grundvallarmannréttindi, gildir ekki á netinu að mati pírata.
Píratar tefla því fram máli sínu til stuðnings að í raun sé ógjörningur að útrýma þjófnaði á netinu án þess að breyta þjóðfélaginu í lögregluríki. Það er líklega rétt. En það á við um ýmis önnur afbrot. Menn munu til að mynda aldrei koma í veg fyrir allt heimilisofbeldi nema með því að fórna friðhelgi einkalífs. Það þýðir þó ekki að menn ætli að láta heimilisofbeldi átölu- eða refsilaust.
Þegar heimilisofbeldi er afhjúpað er refsað fyrir það. Þegar kemst upp um þjófnaði á netinu á að refsa fyrir þá.
Það er einhver misskilningur að ný tækni víki réttarríkinu til hliðar.