Vefþjóðviljinn 259. tbl. 19. árg.
Viðskiptaþvinganir geta verið með ýmsum hætti. Stundum er þeim ætlað að ná raunverulegum árangri gagnvart þeim ríkjum sem þær beinast að, en oft eru þær einungis ætlaðar til að gleðja tiltekna stuðningsmenn valdhafa eða friða fjölmiðlamenn. Það verði nefnilega að „gera eitthvað“.
Flestar eiga þó sameiginlegt að þeir, sem hafa frumkvæði að þeim, gæta eigin hagsmuna eins vel og þeir geta. Yfirleitt efna menn aðeins til viðskiptaþvingana gegn þeim sem þeir bera höfuð og herðar yfir á viðskiptasviðinu.
Svo eru aðgerðirnar sem hafa enga þýðingu en er ætlað að gleðja stuðningsmenn valdhafanna. Stuðningsmennirnir eru kannski orðnir langþreyttir á getuleysi eigin manna, en þá fá þeir allt í einu konfektmola eins og bann við viðskiptum við eitthvert ríki sem þeim er illa við. Svona konfektmolar til að friða stuðningsmenn eru algengir hjá stjórnvöldum sem ná ekki miklum árangri á öðrum sviðum.
Samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur í gær um viðskiptaþvinganir sveitarfélagsins gegn ísraelska ríkinu er að vissu leyti dæmi um konfektmola til stuðningsmanna, þótt engin ástæða sé til að efast um einlægni tillöguflytjandans í málinu. En samþykktin er líka dæmi um fleira.
Í fyrsta lagi er hún skýrt dæmi um að þeir, sem efna til viðskiptaþvingana, gæta þess yfirleitt vandlega að eigin hagsmunir skaðist ekki. Borgaryfirvöld telja sig ekkert muna um að kaupa ekki vörur frá Ísrael. Hvaða vörur ætli þau telji sig kaupa þaðan? Þau sjá hins vegar ekkert að því að kaupa vörur frá kommúnistastjórninni í Kína. Eins og Kjartan Magnússon benti á í borgarstjórn fer Dagur B. Eggertsson óhikað í boðsferðir til Kína. Hann samþykkir hins vegar að ekki megi eiga viðskipti við Ísrael.
Borgaryfirvöldum dettur ekki í hug setja „viðskiptaþvinganir“ á Kína. Þau ákveða ekki heldur að hætta að kaupa vörur frá Bandaríkjunum, þótt í huga margra vinstrimanna séu Bandaríkjamenn litlu betri í mannréttindamálum en Ísraelar.
Og ekki virðist hvarfla að borgarstjórnarmeirihlutanum að beina spjótum sínum að stjórnarherrunum í Ísrael í stað almennra borgara og fyrirtækja þeirra. Hvers á maður, kannski arabi, sem framleiðir bréfaklemmur Í Ísrael að gjalda? Hvers vegna vill Dagur B. Eggertsson skella á nefið á honum þegar hann býður borginni klemmur á kostakjörum?
Í öðru lagi er þessi ákvörðun dæmi um hversu mjög sveitarstjórnarmenn eru farnir að misskilja hlutverk sveitarstjórna. Sveitarstjórnarmenn virðast mjög margir farnir að halda að þeir stýri ríki en ekki sveitarfélagi. Hjá þeim er til dæmis mikil tíska að stofna „mannréttindaráð“ til að vinna að framgangi einhverra kenninga, sem ekki eru á verksviði sveitarfélaga. Þeir setja líka reglur um að ákveðnum bílum megi leggja í bílastæði án þess að greiða í stöðumæli, ef bílarnir falla að skoðunum borgarfulltrúa í loftslagsmálum. Bílastæðagjöld eru hins vegar hugsuð til þess að tryggja skynsamlega nýtingu á bílastæðaplássi, en loftslagsmál eru ekki á verksviði sveitarfélaga.
Ekki frekar en ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs.
Borgaryfirvöld fara með opinbert fé. Hvaða heimild hafa þau til þess að haga opinberum innkaupum eftir persónulegum skoðunum borgarfulltrúa á framgöngu erlendra ríkja?