Fimmtudagur 10. september 2015

Vefþjóðviljinn 253. tbl. 19. árg.

Menn greiða stighækkandi tekjuskatt þótt ekki sé bætt sérstökum þrepum í skattinn.
Menn greiða stighækkandi tekjuskatt þótt ekki sé bætt sérstökum þrepum í skattinn.

Sumt breytist ekki. Vinstri flokkarnir geta bara ekki stillt sig um að andmæla þeirri lækkun, ef lækkun skyldi kalla, á tekjuskatti einstaklinga sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Og þeir hafa ekki síður áhyggjur af því að fækka eigi þrepum í tekjuskattskerfinu úr þremur í tvö.

Raunar voru þrepin sem vinstri stjórnin skyldi eftir sig fjögur, 0%, 37%, 42% og 47% því þeir sem eru með tekjur undir 143 þúsund krónum greiða engan tekjuskatt. Og satt best að segja eru þrepin óendanlega mörg. Engir tveir greiða sama hlutfall launa sinna í skatt nema þeir séu með nákvæmlega sömu tekjur. Á meðan persónuafsláttur (skattleysismörk) er til staðar hækkar tekjuskattshlutfallið með tekjum þótt aðeins væri eitt þrep til staðar.

Á myndinni má sjá hvernig skattbyrðin eykst með auknum tekjum þegar persónuafsláttur er eins og nú kr. 50.902 og skatturinn 37%.

Þá greiðir maður með 200 þúsund í mánaðarlaun 10% launa sinna í skatt en sá með 500 þúsund lætur 26% af hendi.

Það er því engin þörf á því að bæta við þrepum í tekjuskattinn því hann er stighækkandi fyrir.