Miðvikudagur 12. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 224. tbl. 19. árg.

Fram hefur komið opinberlega að mikil óánægja sé með forystu Bjartrar framtíðar. Þessar fréttir virðast hafa verið á rökum reistar því núverandi formaður, Guðmundur Steingrímsson, hefur nú lagt til að formennskan í flokknum „róteri“ milli þingmanna flokksins. Tók hann fram að ýmsir þingmenn hefðu einmitt lýst áhuga á slíku fyrirkomulagi.

Þannig geta allir þingmennirnir orðið „formaður“ í stjórnmálaflokki. Og enginn getur velt þeim úr formannsstólnum. Stuðningsmenn flokksins koma þar hvergi nærri. Og hver velur svo frambjóðendur Bjartrar framtíðar? Jú, forystan. Björt framtíð hefur tvisvar boðið fram, við alþingiskosningarnar 2013 og sveitarstjórnarkosningarnar 2014. Í hvorugt skiptið voru haldin prófkjör heldur var tilkynnt hvernig framboðslistarnir yrðu, rétt eins og „Besti flokkurinn“ gerði 2010.

Það er auðvitað langhentugast að formaðurinn velji þingmennina og þingmennirnir skiptist svo á um að vera formaður.

En hvernig ætli kjósendur þessara flokka hefðu talað ef einhver „fjórflokkurinn“ hefði notað slík vinnubrögð?

Annars er furðuleg staða með „formenn“ vinstriflokkanna.

Í Samfylkingunni er formaður þó kosinn á landsfundi en núverandi formaður var þar kosinn með minnihluta atkvæða, með eins atkvæðis mun á næsta frambjóðanda, eftir rafræna kosningu þar sem kjósendum gekk misvel að fá atkvæðin tekin gild.

Hjá Pírötum kallar formaðurinn sig ekki formann heldur „kaptein“, og fjölmiðlar spila með í hugsunarleysi. Ef þeir hjá Bjartri framtíð hefðu vitað að fjölmiðlar eltust við slíka sýndarmennsku hefðu þeir auðvitað ekki kallað sinn formann formann, heldur eitthvað sniðugt eins og Æðsta strump eða Æðislegasta flokksmanninn. Fjölmiðlamenn hefðu auðvitað notað þessi heiti, fyrst þeir eltast við það að kalla leiðtoga Pírata „kaptein“. Rétt eins og þeir sáu ekkert athugavert við að einn stjórnmálaflokkur nefndi sig „Besta flokkinn“.