Laugardagur 1. ágúst 2015

Vefþjóðviljinn 213. tbl. 19. árg.

Eins og menn vita verða sárafá frumvörp óbreyttra þingmanna að lögum. Flest frumvörp sem verða að lögum koma frá embættismönnum sem enginn þekkir, íslenskum eða erlendum, en ráðherrar sjá um að fara með þau í þinghúsið svo embættismaðurinn þurfi ekki að fara út undir bert loft.

Það hefur lengi verið þannig að þingmannafrumvörp fá langfæst afgreiðslu. Eftir að sú nýbreytni var svo tekin upp á þinginu að stjórnarandstaðan er látin ráða dagskránni, verða almenn þingmannamál vart rædd eða afgreidd nema þau séu sérstök rétttrúnaðarmál, en þá fá þau að vísu greiða leið og mikið kapphlaup verður um að komast í pontuna til að lýsa yfir stuðningi við þær skoðanir sem eru í tísku.

Meðal þeirra mála sem ekki voru afgreidd á síðasta þingi var frumvarp Vilhjálms Árnasonar og fleiri um áfengissölu. Lögðu andstæðingar málsins mikið á sig til að hindra að atkvæði yrðu greidd um málið og tókst að hafa sitt fram.

Í grein í Morgunblaðinu í gær fjallar Stefán Einar Stefánsson blaðamaður um einn anga þessa máls. Hann rifjar upp að ein röksemdanna gegn frumvarpi Vilhjálms og félaga var að ekki mætti auka aðgengi að áfengi því slíkt yki óábyrga notkun áfengis. Hins vegar hafi ÁTVR sjálft aukið aðgengi að áfengi gríðarlega með því að opna vefverslun þar sem menn geti pantað flöskurnar og fengið þær sendar heim ef pantað er fyrir 120.000 krónur eða meira. Þannig hefur ÁTVR í raun breytt hverri einustu tölvu og snjallsíma í áfengisverslun. Eða eins og Stefán Einar segir: „ÁTVR hefur því eins og af þessu sést slegið vopnin úr höndum andstæðinga frumvarpsins fyrrnefnda. ÁTVR hefur nú þegar sett upp vínverslanir á öllum heimilum hérlendis, alls staðar þar sem snjallsímar eru brúkaðir eða spjaldtölvur. Meira getur aðgengið ekki orðið og því er alveg óhætt að afnema ríkiseinokunina í eitt skipti fyrir öll.“

Hvernig stendur á því að andstæðingar frelsis í smásölu áfengis hafa ekki krafist þess að vefverslun ÁTVR verði lokað? Getur verið að þeir hafi í raun ekki áhyggjur af „auknu aðgengi“, heldur séu einfaldlega á móti frjálsum markaði?