Vefþjóðviljinn 202. tbl. 19. árg.
Það er bæði frægt og miður að embættismenn og jafnvel ráðherrar láta það stundum hafa óæskileg áhrif á sig ef þeir eru ekki sömu línu og aðrir gestir á alþjóðlegum fundum og ráðstefnum erlendis.
Þeim þykir óþægilegt að verja góðan málstað ef fulltrúar annarra ríkja hrista hausinn. Hjálp, allir fulltrúar Norðurlandanna munu kveðja sér hljóðs og andmæla mér. Mun kannski enginn tala við mig í móttöku sænska jafnréttisráðherrans í kvöld? Ég get ekki látið það spyrjast út af að hafa spillt samstöðu eyríkja í málinu. Með hverjum á ég að sitja í rútunni til Versala ef ég móðga sendinefnd Írlands? Verður okkur boðið aftur á fund þessara samtaka ef ég er segi sannleikann?
Þetta er auðvitað mannlegt. Hver vill ekki hafa það náðugt í utanlandsreisu? Fá klapp á bakið fremur en vera hornreka? Mannlegt en ekki forsvaranlegt. Við slík tilefni á ekki að gera annað en að halda vel á hagsmunum Íslands.
Í Skessuhorni í gær var sagt frá því að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra telji að Íslendingar eigi að draga úr hvalveiðum. Og vitnað er í ráðherrann sem svarar af hreinskilni:
Við hér í utanríkisráðuneytinu verðum vör við það frá fyrstu hendi á fundum sem við sækjum að Ísland er stundum litið hornauga vegna þessara veiða.
Fulltrúum íslenska ríkisins á alþjóðlegum ráðstefnum eru greidd laun til að þola það að vera litnir hornauga. Ef það dugar ekki verður einfaldlega að kaupa þessa þjónustu utan úr bæ og fela verktökum með skýr fyrirmæli að kynna hagsmuni landsins.