Vefþjóðviljinn 201. tbl. 19. árg.
Ríkisútvarpið finnur jafnan mikilvæg fréttaefni. Í gær sagði það sem fyrstu frétt að sjálfur Glenn Mpufane, yfirmaður stóriðjumála hjá Alþjóðasamtökum verkamanna, segði að fyrirtækið Rio Tinto hefði „stundað það í verksmiðjum sínum um allan heim að skipta út föstum starfsmönnum fyrir verktaka. Mikilvægt sé að ganga ekki að kröfum þeirra um slíkt í álverinu í Straumsvík.“
Í frétt Ríkisútvarpsins var einnig haft eftir Mpufane að á síðustu árum hefði hlutfall verktaka hjá verksmiðjum fyrirtækisins í Frakklandi farið upp í 25%. Ekki var nefnt hlutfall verktaka í verksmiðjum fyrirtækisins í öðrum löndum svo líklega er það lægra.
Í fréttinni segir einnig að Rio Tinto segði sjálft að verktakar væru ráðnir til að auka sveigjanleika og vinna störf sem ekki þurfi að vinna allt árið, en að verkalýðsfélagið tæki það ekki trúanlegt.
Þetta var stór frétt um skoðun Glenn Mpufane, starfsmanns alþjóðlegs verkalýðsfélags. Af fréttinni skein í gegn að augljóst væri að þeir sem semdu við fólk sem verktaka væru gráðugar aurasálir sem lítið skeyta um grundvallarréttindi fólks.
Eitt fróðlegt atriði vantaði í fréttina.
Hvað koma margir einstaklingar að dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu á hverju ári? Eru þáttagerðarmenn og aðrir þeir sem koma að hinu gríðarlega mikilvæga menningar- og öryggisstarfi sem unnið er í Efstaleiti 1, allir fastir starfsmenn? Eða getur verið að þar sé talsverður fjöldi verktaka á hverju ári?
Kannski verður gerð frétt um þetta einhvern tíma. Nægan áhuga hafa menn á starfsmannamálum Ríkisútvarpsins.