Vefþjóðviljinn 200. tbl. 19. árg.
Einn lífseigasti misskilningur stjórnmálaumræðunnar er „sameign þjóðarinnar“. Honum fylgir iðulega að „þjóðin“ eigi alls kyns auðlindir sem hún fái ekki nægan arð af. Menn hafa þrástagast á þessu varðandi fiskinn í hafinu, en hugmyndaríkir menn geta fundið nýjar og nýjar auðlindir sem „þjóðin“ á og fær ekki nægan arð af.
„Þjóðin“ á ekki fiskinn í sjónum, frekar en neitt annað. Það er að segja, „þjóðin“ er ekki eigandi neins. Ríkið getur átt hluti, sveitarfélög, fyrirtæki, einstaklingar, félög geta átt hluti, en þjóðin ekki. Hún er ekki til sem eigandi, hún er ekki aðili að neinu.
En á þá ekki ríkið bara fiskinn? Bara fyrir hönd þjóðarinnar?
Ef einhver heldur að ríkið eigi fiskinn þá mætti benda á að áróðursmennirnir nefna aldrei ríkið sem eiganda fiskimiðanna, heldur eingöngu „þjóðina“. En ríkið er ekki eigandi fiskimiðanna, þótt það sem ríki geti sett almennar reglur um nýtingu þeirra. Rétt eins og ríkið getur til dæmis friðað lóuna, þótt það eigi ekki lóurnar sem gleðja fólk á sumrin.
En nú segir í lögum að fiskimiðin við Ísland séu sameign íslensku þjóðarinnar. Það þýðir auðvitað að þjóðin á fiskimiðin, er það ekki?
Í hvaða lögum segir þetta? Jú, það er einmitt í fiskveiðistjórnarlögunum, kvótalögunum sjálfum. Af því sést nokkuð vel hversu fráleitt er að kvótakerfið sé í andstöðu við „sameign þjóðarinnar“. Það að fiskimiðin séu í sameign þjóðarinnar þýðir að stjórna skal fiskveiðum þannig að alltaf verði gjöful fiskimið við Ísland, eftir því sem er á valdi mannanna að tryggja það. Útgerðarmenn mættu ekki fara og veiða hvern einasta sporð sem er í hafinu, svo ekkert yrði eftir til framtíðar. Ríkið má setja reglur um nýtingu fiskimiðanna, ákveða hámarksafla, ákveða friðun á ákveðnum svæðum, ákveða leyfileg veiðarfæri og svo framvegis. Ekki af því að ríkið, eða „þjóðin“, eigi fiskimiðin, heldur af því að ríkið má setja reglur til að reyna að tryggja að alltaf verði gjöful fiskimið við Ísland.
Enginn á óveiddan fisk sem syndir í sjónum. Hvorki útgerðarmaðurinn, sjómaðurinn né ríkið. Og alls ekki þjóðin.
En fyrir þá sem halda að þjóðin eigi fiskinn í sjónum og fái ekki nægan arð af auðlind sinni, mætti setja upp lítið dæmi. Maggi Mikilmennska lítur dálítið stórt á sig. Hann trúir því að hann eigi fiskimiðin. Hann telur sig hafa numið þau með því að róa um þau á árabát og setja út bauju á hálfrar mílu fresti. Svo heyrir hann af því að í raun sé annar aðili, „íslenska þjóðin“, talinn eigandi þessara sömu fiskimiða. Hann ákveður þá að fara í mál við þennan aðila og fá dæmt að hann sjálfur, Maggi Mikilmennska, sé réttur eigandi fiskimiðanna.
Og við hvern á hann að fara í mál? Íslensku þjóðina? Hvernig er það gert? Hvaða aðili er það?
Auðvitað er „íslenska þjóðin“ ekki til sem eigandi neins. Hún gæti ekki átt hús, ekki bíl og ekki einu sinni eldspýtustokk. Hún gæti ekki farið í mál og henni er ekki hægt að stefna. Og hún á ekki heldur nein fiskimið og það er enginn að nýta auðlindina „hennar“.
Þeir sem tala fyrir því að „þjóðin“ eigi auðlindir eru í raun að biðja um ríkiseign á auðlindum. En þeir vilja bara ekki nota það orðalag. Hvers vegna ætli það sé?