Vefþjóðviljinn 199. tbl. 19. árg.
Í Morgunblaðinu í dag skrifar Gunnar Dofri Ólafsson eina af sínum ágætu greinum. Þar nefnir hann að samkvæmt könnunum vilji „ungt fólk“ helst búa í póstnúmerum 101 en einnig þar sem löngum var talið fyrir utan bæinn í póstnúmerum 105 og 107.
Í þessum hverfum sé nefnilega stutt í alla þjónustu.
Ungt fólk sér kosti þess að búa í raunverulegu borgarsamfélagi með þjónustu í næsta nágrenni, en ekki í úthverfum þar sem einkabíll er í huga margra staðalbúnaður.
Hvaða þjónusta ætli það sé nú sem þarna er verið að tala um?
Hvaða þjónusta er til að mynda í vestari hluta 101 sem ekki þarf að sækja á bíl?
Vissulega geta menn á þeim slóðum rölt á milli ótal kaffihúsa og annarra veitingastaða. Valið um tuskulunda saumaða í bæði Tyrklandi og Víetnam. Að gríðarlegu úrvali flíspeysa ógleymdu.
En þegar kemur til að mynda að því að sækja þjónustu fyrir börn utan skóla þarf nær undantekningarlaust að grípa til einkabílsins, þar er skutlið allsráðandi. Íþróttastarf og aðrar tómstundir eru lengra frá heimilum í 101 en í flestum úthverfum Reykjavíkur, að ekki sé minnst á önnur sveitarfélög á borð við Garðabæ og Seltjarnarnes þar sem gönguleiðir frá heimilum í íþróttir eru bæði styttri og greiðari.
Það er heldur engin alhliða líkamsræktarstöð í 101 eða 107 og þaðan er sömuleiðis drjúgur spölur í alvöru útivistarsvæði á borð við Elliðaárdalinn eða Heiðmörkina. Aksturstími í Bláfjöll er meira en helmingi lengri úr Aðalstræti en Árbæ.
Eru úthverfin með þessum kostum ekki alveg jafn „raunverulegt borgarsamfélag“ og túristaveröldin í miðbænum?