Vefþjóðviljinn 197. tbl. 19. árg.
Steingrímur J. Sigfússon lagði fram frumvarp til laga um „endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi“ vorið 2013 undir því yfirskini að um „innleiðingu“ á tilskipun ESB 2009/28/EB væri að ræða. Tilskipunin og lögin gera ráð fyrir að 10% orku í samgöngum verði af endurnýjanlegum uppruna árið 2020.
En í þessari tilskipun ESB er sérstakt ákvæði sem kveður á um að endurnýjanleg orka sem rafbílar nota sé metin 2,5 falt á við endurnýjanlega orku á borð við repjuolíu og kornetanól. Ástæðan fyrir þessari reiknireglu er að rafbílar nýta orkuna nær þrefalt betur en bílar með sprengihreyfil.
Furthermore, for the calculation of the electricity from renewable energy sources consumed by electric road vehicles, that consumption shall be considered to be 2,5 times the energy content of the input of electricity from renewable energy sources.
Sé þessi reikniregla ekki til staðar myndu 25% bílaflotans þurfa að skipta yfir á rafmagn til að ná 10% markmiðinu. Ólíklegt er að það náist fyrir árið 2020. Væri reiknireglan til staðar þyrftu aðeins 10% bíla að ganga fyrir rafmagni til að ná 10% markinu.
Því miður var þessi reikniregla ekki leidd í lög hér þegar tilskipunin var „innleidd“ vorið 2013. Bíll sem gengur fyrir innfluttri repjuolíu vegur því þrefalt meira en bíll sem gengur fyrir rafmagni úr innlendri vatnsaflsvirkjun.
Það væri fróðlegt að heyra skýringar Steingríms á því hvers vegna þessi regla, sem er augljóslega mikilvæg fyrir ríki eins og Ísland með gnægð endurnýjanlegrar raforku, var ekki leidd í lög hér líkt og tilskipunin kveður á um.