Laugardagur 4. júlí 2015

Vefþjóðviljinn 185. tbl. 19. árg.

Upprunaþvottur. Á rafmagnsreikningum Reykjavíkinga kemur fram að stór hluti orkunnar sé framleiddur með kolum og kjarnorku.
Upprunaþvottur. Á rafmagnsreikningum Reykjavíkinga kemur fram að stór hluti orkunnar sé framleiddur með kolum og kjarnorku.

Morgunblaðið hefur vakið á því athygli undanfarna daga að íslenskir orkuframleiðendur selja réttinn til þess að halda því fram að orka þeirra sé endurnýjanleg í gegnum svokallaðar upprunavottanir.

Hverjum sem er innan Evrópu býðst að kaupa slíka vottun en án hennar geta innlend fyrirtæki og heimili ekki haldið því fram opinberlega að orkan sem nýtt er hérlendis sé endurnýjanleg.

Á myndinni hér að ofan má sjá úrklippu af reikningi frá Orku náttúrunnar (dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur) sem flestir Reykvíkingar kaupa rafmagn og heitt vatn af. Reykvíkingar telja sig sjálfsagt vera að kaupa 100% endurnýjanlega orku úr vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum.

En samkvæmt orkureikningum borgarbúa er um að ræða 37% olía, kol og gas og 24% kjarnorka.

Einhvers staðað úti í Evrópu veifar hins vegar kolaknúið iðnver vottorði um að það gangi fyrri grænni orku af Nesjavöllum! 

Líkt og annað af helsta skrípaleik ESB í orkumálum er þetta fölsunarkerfi hingað komið með sleifarlagi iðnaðarráðuneytisins og undirstofnana þess.

Skemmst er að minnast þess hvernig ráðuneytið „innleiddi“ í ráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar reglur ESB um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum. Það hefur þegar kostað Íslendinga milljarða í erlendum gjaldeyri vegna umstangs og innkaupa á lífeldsneyti frá Evrópu. Ríkissjóður Íslands niðurgreiðir þessi innkaup um 70 til 80 krónur á hvern lítra með skattaívilnun sem rennur að mestu til seljanda lífolíunnar ytra.

Hvers vegna beitir Ragnheiður E. Árnadóttir núverandi iðnaðarráðherra sér ekki fyrir því að losa Ísland undan þessum ósköpum?