Föstudagur 3. júlí 2015

Vefþjóðviljinn 184. tbl. 19. árg.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur alltaf eitthvað fram að færa. Eins og fjallað var um í gær dró hún ekki af sér í endursögn slagorðanna sem tíu manns hrópuðu á Austurvelli á meðan á eldhúsdagsumræðum stóð í þinghúsinu. Í gær var svo í hádegisfréttum sagt frá umræðum á þingi um hugsanlegar reglur um „þjóðaratkvæðagreiðslur“ í framtíðinni.

Ræddu þá saman í fréttatímanum fréttamaður og þingfréttaritari Ríkisútvarpsins. Fréttamaðurinn spurði hvort „þjóðaratkvæðagreiðslur“ yrðu hugsanlega tíðari í framtíðinni en hingað til, og þingfréttaritarinn svaraði orðrétt:

„Ja við skulum nú sjá hvað setur, en stjórnmálamenn hafa allvega sett  þetta á dagskrá og taka mark á því að þjóðinni er full alvara með því að taka virkari þátt í ákvörðunum alþingis.“

Í Efstaleiti 1 sér enginn neitt athugavert við svona fréttamennsku. Þar sér líklega enginn neitt að því að þingfréttaritari fullyrði í fréttum að „þjóðinni“ sé „full alvara“ með eitthvað.

Hvar hefur „þjóðin“ lýst þessu yfir?

Nú hugsar ef til vill einhver að skoðanakannanir sýni að meirihluti fólks geti hugsað sér fleiri „þjóðaratkvæðagreiðslur“. En hvers vegna var það þá ekki sagt? Skoðanakannanir hafa líka sýnt að meirihluti landsmanna vill ekki ganga í Evrópusambandið. Og að meirihluti hafi stutt „skuldalækkun“ fasteignalána. Samt dettur engum fréttamanni í hug að segja að „þjóðinni“ sé „full alvara“ um þetta. Eða að málið sé útrætt eftir að skoðanakönnun hafi birst og að þá eigi þingmenn einfaldlega að „taka mark á því“.

Finnst einhverjum þetta smámál? Þetta er dæmi um furðuleg vinnubrögð sem þykja sjálfsögð í Efstaleiti 1. Það er bara fullyrt í fréttum að „þjóðinni“ sé „full alvara“ með eitthvað pólitískt mál, og nú hafi stjórnmálamenn tekið mark á því.

Geri þeir það ekki, þá taka þeir ekki mark á því sem „þjóðinni“ er „full alvara með“.