Fimmtudagur 2. júlí 2015

Vefþjóðviljinn 183. tbl. 19. árg.

Eldhúsdagsumræður fóru fram á Alþingi í gær enda styttist nú í þinglok eftir að ákveðið var að stjórnarandstaðan en ekki ríkisstjórnin réði því hvaða mál yrðu afgreidd og hvaða mál ekki. Þetta er í annað sinn í sögunni sem ákveðið er að hafa þennan hátt á, en einnig er gert ráð fyrir að þessi aðferð verði notuð á næstu tveimur vorþingum. En síðan ekki framar.

Einhver hefur greinilega haldið að eldhúsdagur væri hátíðlegt tilefni og þess vegna var efnt til „mótmæla“ fyrir utan þinghúsið. „Almenningur er að vakna“, sagði mótmælaboðarinn í viðtali, enda blasir við að taka þarf viðtal um væntanleg mótmæli. Hundruð manna „boðuðu komu sína á facebook“, eins og fréttamenn hafa alltaf mikinn áhuga á.

Ríkisútvarpið bregst auðvitað ekki. Í fréttum sínum eftir þingumræðurnar í gær tók það samviskusamlega fram að menn hefðu verið á Austurvelli til að reyna að koma á framfæri skoðunum sínum á stjórnvöldum, og svo voru helstu ávirðingar stjórnvalda lesnar upp. Ríkisútvarpið taldi þetta auðvitað ekki nægja heldur setti frétt á vef sinn þar sem sagði meðal annars:

Mótmælendur komu saman fyrir utan Alþingishúsið nú í kvöld og létu í sér heyra meðan þingmenn ræddu störf þingsins á hinum svonefndu eldhúsdagsumræðum. Einn mótmælandi mætti með lúður og spilaði hástöfum fyrir utan þinghúsið.

Heldur fámennt var á mótmælunum. Til þeirra var boðað á facebook, en þar kom fram að þjóðfélagið væri í sárum en þrátt fyrir það færi nú „ríkisstjórnin í frí til þess að grilla og tjilla.“

Ennfremur kom fram að heilbrigðiskerfið væri á heljarþröm, en ráðamenn væru í algjörri afneitun, stjórnarskránni væri ennþá haldið í gíslingu, umhverfismál væri í ólestri, siðblinda og spilling léku lausum hala. Þetta þótti mótmælendum óásættanlegt og blésu til mótmæla.

Hvað ætli margir hafi mætt til að „mótmæla“? Jú, þeir munu hafa verið tíu. Engu að síður fengu þeir um sig fréttir. Slagorð þeirra voru lesin upp í fréttatíma og birt á vefsíðu Ríkisútvarpsins.

Sigurður Sigurðarson birti myndina hér að ofan af Austurvelli, sem segir meira en mörg orð. En til að sanngirni sé gætt, þá er rétt að minna á að Ríkisútvarpið tók fram að hin fréttnæmu „mótmæli“, væru „heldur fámenn“. En þau kölluðu auðvitað á upplestur á skoðunum „mótmælenda“, því alltaf skal Ríkisútvarpið láta eins og sömu slagorðin séu jafn fréttnæm.

Á hverjum degi er skrifað langt mál og stundum rökstutt um íslensk stjórnmál. Fæst af því ratar í fréttir. En ef einhver blæs í lúður eða öskrar, þá finnst þeim í Efstaleiti 1 af einhverjum ástæðum að skoðanir þess manns verði fréttnæmari en skoðanir annarra.

Næst þegar einhver leggur til á fréttastofunni að sögð verði fimmhundraðasta fréttin af „mótmælum“ sem felast í því að einhver hópur öskrar tveggja orða slagorð, þá ætti einhver að spyrja fréttastjórann hvort hún myndi líka láta segja frétt af málinu ef „mótmælandinn“ hefði bloggað slagorðið, eða skrifað þau sem blaðagrein. Og þegar fréttastjórinn myndi neita því, þá ætti að spyrja hana hvort slagorðin eigi meiri erindi við almenning ef þau eru hrópuð.