Vefþjóðviljinn 181. tbl. 19. árg.
Birgitta Jónsdóttir kapteinn Pírata lýsti á alþingi í dag „yfir stuðningi við grísku þjóðina“ vegna fjárhagsvandræða hennar.
Við eigum að styðja við aðrar þjóðir og sér í lagi Grikkland sem hefur verið farið mjög illa með af troikunum svokölluðu þar sem velt hefur verið yfir á axlir almennings gríðarlega miklu skuldabákni sem er farið fram á að verði greitt til baka með því að efna til enn frekari skulda sem að er auðvitað fjarstæðukennt.
Þótt hafa megi samúð með Grikkjum er ekki eins og þeir hafi verið féflettir. Því er í raun öfugt farið. Ríkissjóður þeirra hefur rakað til sín lánsfé án þess að eiga raunhæfa möguleika á að endurgreiða það. Mestur hluti þessa lánsfjár hefur endað í vösum Grikkja sem rausnarleg ríkisútgjöld til alls kyns mála.
Vandamál Grikkja er að of lengi hafa of margir stutt þá – með lánveitingum. Grikkir vilja reyndar sjálfir meiri lán svo frekari fjáraustur annarra evruríkja til þeirra væri ekki beinlínis að „fara mjög illa með þá“ ef orðið væri við óskum þeirra.
En á skuldafjalli Grikkja blasir við vandinn við „sameiginlegan“ gjaldmiðil margra ríkja. Ábyrgðarlaus ríki geta slegið lán um víðan völl út á lánstraust annarra ríkja með hinn sameiginlega gjaldmiðil. Það er freisting sem ekkert evruríkjanna við Miðjarðarhaf stóðst á fyrsta áratug hinnar sameiginlegu myntar.