Vefþjóðviljinn 176. tbl. 19. árg.
Af einhverjum ástæðum hefur því verið haldið að fólki við norðarvert Miðjarðarhaf og líklega víðar að „íslenska leiðin“ út úr fjárhagsvandræðum sé að ríkið hlaupist frá skuldum sínum.
En skuldir ríkissjóðs Íslands, að frátöldum lífeyrisskuldbindingu við opinbera starfsmenn, voru litlar þegar fjármálakerfið varð afvelta haustið 2008.
Ríkissjóður Íslands hafði því engar skuldir til að hlaupast frá. Hins vegar skulduðu íslensk fjármálafyrirtæki stórkostlegar fjárhæðir um allar trissur og vissulega reyndu íslenskir ESB-sinnar að koma hluta þeirra yfir á ríkissjóð með Icesave-„samningunum“.
En þetta voru einkafyrirtæki og ekki á ábyrgð skattgreiðenda. Það er því ólíku saman að jafna stöðu ríkissjóðs Grikkja nú sem skuldar stórfé í evrum og stöðu ríkissjóðs Íslands haustið 2008 sem skuldaði lítið og nær eingöngu í myntinni sem hann sjálfur gefur út.
Þetta kom ágætlega fram í viðtölum mbl.is við þrjá prófessora við Háskóla Íslands í fyrradag.