Vefþjóðviljinn 174. tbl. 19. árg.
Kærunefnd jafnréttismála telur að innanríkisráðherra hafi brotið lög um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna þegar þrír karlar voru settir aðstoðaryfirlögregluþjónar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í maí á síðasta ári.
Um þetta sagði Jóhann Hlíðar Harðarson í fréttum Ríkisútvarpsins á laugardaginn:
Innanríkisráðuneytið auglýsti í febrúar í fyrra lausar stöður þriggja aðstoðaryfirlögregluþjóna. Konur voru sérstaklega hvattar til að sækja um, enda er kynjahlutfall í stjórnunarstöðum hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu skakkara en skakki turninn í Písa.
Af 96 stöðum lögreglumanna hjá embættinu með mannaforráð, skipa konur sjö stöður og karlar 89.
Þetta hljómar ekki vel. Stöður með mannaforráð eru 93% skipaðar körlum.
En eins og svo oft í fréttum Ríkisútvarpsins er aðeins hálf sagan sögð.
Í frétt af þessu tagi hefði verið eðlilegt að geta þess að lögreglan almennt er 87% skipuð körlum. Einnig má gera ráð fyrir að karlarnir hafi almennt lengri starfsferil innan lögreglunnar en konurnar. Ef karlar eru 87% lögreglumanna er það þá „skakkara en skakki turninn í Písa“ að karlmenn séu í 93% af stjórnunarstöðum?
Nei það er bara ekkert skakkt við það. Þetta er svona um það bil það hlutfall sem vænta má.