Fimmtudagur 18. júní 2015

Vefþjóðviljinn 169. tbl. 19. árg.

Kvenréttindafélaginu gæti tekist að ná til sín skattfé sem ætlað var konum í þróunarlöndum.
Kvenréttindafélaginu gæti tekist að ná til sín skattfé sem ætlað var konum í þróunarlöndum.

Á morgun stendur til að greiða atkvæði um þingsályktunartillögu um nýjan 500 milljóna króna opinberan sjóð að því tilefni að liðin eru 100 ár frá því sumar konur fengu kosningarétt hér á landi. 

Hvaða þingmaður fékk þá frumlegu hugmynd að afmælisgjöf að auka ríkisútgjöldin?

Sjóðurinn verður kenndur við jafnrétti.

Upphaflega stóð til að allt að helmingi fjármuna sjóðsins yrði varið til að bæta bága stöðu kvenna í þróunarlöndum. Konur í mörgum þróunarlöndum búa ekki aðeins við lagalegt ójafnræði, ólíkt kynsystrum þeirra hér á landi, heldur skortir helstu nauðþurftir og lágmarks heilbrigðisþjónustu.

En þá brjálast svokallað Kvenréttindafélag Íslands. Og vill fá hverja krónu til notkunar fyrir innlendan félagsskap. Í Fréttablaðinu í dag er eftirfarandi haft eftir Brynhildi Heiðu- og Ómarsdóttur framkvæmdastýru félagsins.

Það hefur lengi verið þörf fyrir svona sjóð. Frjáls félagasamtök og kvennasamtök sem starfa að jafnréttismálum berjast í bökkum á hverju ári við að fjármagna okkur. Bara það að hafa jafnréttissjóð sem við getum leitað til, til að styrkja okkar verkefni og okkar starfsemi, á eftir að verða veruleg mikil búbót.

Og þeir sem voru að véla um málið á þingi létu undan ævintýralegri frekju félagsins um til fá peningana í „okkar verkefni“ og „okkar starfsemi“ svo að við gætum „fjármagnað okkur.“

Því var ákveðið að beina peningunum frá stúlknaskólum og réttarbótum í þróunarlöndunum og í „verkefni sem tengjast auknu kynjajafnrétti á alþjóðavísu“.

Verkefni á alþjóðavísu fyrir íslenska jafnréttisiðnaðinn! Fundir, ráðstefnur, ferðalög, samráðsvettvangur, samtal, kynningarverkefni, hugmyndasmiðjur, bæklingar, vefir, kynjaðir tónleikar og  kvikmyndahátíðir, hvítvín og hummus.