Vefþjóðviljinn 167. tbl. 19. árg.
Hvað með skattaafslátt fyrir barnlausa? Og sérstakan skatt á bleyjur, barnamat og barnaföt? Ef það dugar ekki mætti auðvitað setja eitthvað í drykkjarvatnið til að draga úr frjósemi manna!
Á vef New York Times 31. maí síðast liðinn birtist afar fróðlegt myndband um 40 – 50 ára gamlar heimsendaspár vegna „offjölgunar mannkyns“. Að mestu leyti voru þessir heimsendaspámenn á einn eða annan hátt upphafsmenn umhverfishyggjunnar og plægðu akurinn fyrir helstu umhverfisverndarsamtök veraldar.
Aðsópsmesti heimsslitaspámaðurinn var tvímælalaust bandaríski líffræðingurinn og Stanford prófessorinn Paul Ehrlich. Hann er meðal annars höfundur bókarinnar The Population Bomb sem kom út árið 1968.
En hrakspárnar hafa auðvitað ekki gengið eftir. Einn viðmælenda bendir á að kannski hafi vísindamennirnir litið á menn á sama hátt og skordýr. Og algerlega litið framhjá því að maðurinn er skynug skepna sem finnur upp á alls kyns hlutum til að létta sér lífið.
Einn fyrrum fylgismanna Ehrlichs telur nú að um miðja öldina, þegar ætla má að fólksfjöldi nái hámarki, muni menn ekki hafa áhyggjur af því að fólk sé of margt heldur því að skortur verði á fólki, ekki síst ungu.
En Ehrlich sjálfur gefur ekkert eftir og í viðtali við NYT segir hann sem fyrr:
Að hver kona fái að eiga börn að vild er jafn fráleit hugmynd og að menn megi henda eins miklu sorpi og þeir kjósa yfir í garð náungans.