Helgarsprokið 7. júní 2015

Vefþjóðviljinn 158. tbl. 19. árg.

Svo virðist sem styttist í að stór skref verði stigin í átt að afléttingu hafta. Með þeim fyrirvara að ekki liggur fyrir hvernig stjórnvöld hyggjast standa að því, er það fagnaðarefni, því viðskipti eiga að jafnaði að vera sem frjálsust og án allra ónauðsynlegra afskipta hins opinbera.

En ætli fylgi stjórnarflokkanna aukist við afnám haftanna? Það er ekkert víst, jafnvel þótt þetta muni takast að flestra mati vel, sem enn er að sjálfsögðu óvíst. Fylgi stjórnarflokkanna er ekki endilega í sérstöku samræmi við einstök verk þeirra.

Sem dæmi má daga „skuldaleiðréttinguna“. Hún var boðið fyrir kosningar, og hún var framkvæmd. Kannanir hafa gefið til kynna að töluverður meirihluti landsmanna hafi viljað að slík „leiðrétting“ yrði framkvæmd. Framkvæmdin tókst út af fyrir sig vel, það er að segja kostnaður hins opinbera varð minni en margir höfðu óttast, og fáir hafa reynt að halda fram að enn sé óbættur einhver „forsendubrestur“ fasteignakaupenda frá bankahrunstímanum.

Þeir sem skulda verðtryggð lán, önnur en fasteignakaupalán, svo sem námslán, vildu auðvitað fá þau lán „leiðrétt“ líka, en þeir geta ekki sagt að farið hafi verið á bak við þá. Fyrir kosningar var jafnan talað um að menn ætluðu aðeins að „leiðrétta“ fasteignakaupalánin.

Auðvitað var Vefþjóðvilinn andvígur aðgerðinni og er enn. Þegar hann segir að aðgerðin hafi tekist vel, þá á hann eingöngu við þetta hefði getað orðið töluvert verra. Oft verða slík mál nefnilega mun verri frá því þau eru boðuð og þar til þau eru framkvæmd. Tónlistarhúsið sem átti að kosta rúman milljarð mun kosta skattgreiðendur tugi milljarða, svo dæmi sé tekið. „Leiðréttingin“, sem aldrei hefði átt að framkvæma, varð þó ekki verri en menn höfðu óttast í upphafi. Vandamálið við „leiðréttinguna“ var ekki útfærslan, heldur grunnforsendan, sú að það hefði orðið „forsendubrestur“ sem menn ættu að fá „leiðréttan“.

En stjórnarflokkarnir hafa ekki notið þessa í neinu, svo séð verði af könnunum. „Leiðréttingin“ er ein stærsta uppfylling kosningaloforðs í langan tíma, en samt njóta flokkarnir þess ekki í fylgi.

Ein skýringin á því er að stór hluti kjósenda kýs ekki til að „þakka fyrir“. Þeir kjósa vegna einhvers sem þeir telja sig geta fengið til viðbótar. Eða til að refsa fyrir að hafa ekki fengið eitthvað. Margir eru tilbúnir að kjósa einhvern flokk til að fá lánin sín lækkuð. En það eru færri tilbúnir að nota eina atkvæðið sitt til að segja „takk fyrir að lækka lánið mitt“.

Stjórnarflokkarnir hafa sáralítið gert af því sem hefðbundnir stuðningsmenn þeirra vilja. Stundum er eins og forystumennirnir hafi engar áhyggjur af eigin flokksmönnum, þeir muni alltaf skila sér á kjörstað, en hafi mestar áhyggjur af athugasemdum á vefmiðlum, af taugaæsingnum í Efstaleiti 1, af áköfum fjölmiðlamönnum, af álitsgjöfum, og svo framvegis. Ríkisstjórnin hefur lítið sem ekkert gert af því að snúa við því sem vinstristjórnin gerði. Skattalækkanir hafa til dæmis verið ótrúlega litlar, auk þess sem menn hafa verið mjög feimnir við það augljósa, að skattalækkun kemur þeim fyrst til gagns sem borga skatta. Það er ekki galli á skattalækkun að þeir sem ekki borga skattinn njóti hennar ekki beinlínis.

Borgaralegir hægrimenn á Íslandi sjá hægar, litlar og takmarkaðar skattalækkanir þótt ekki megi gleyma því að almenn vörugjöld voru aflögð. Í sveitarstjórnum sjá þeir ekki útsvarslækkanir. Þeir sjá ekki aukningu samningafrelsis. Þeir sjá hvergi afnám forsjárhyggjunnar. Þeir sjá ekki raunhæfan niðurskurð ríkisútgjalda eða útgjalda sveitarfélaga. Þeir sjá ekki tekið á hítinni í Efstaleiti 1 heldur sjá þeir dauðhrædda þingmenn auka fjárausturinn þangað. Þeir sjá hvergi stigið róttækt skref til hægri. Þeir sjá hins vegar mikið af frumvörpum sem embættismenn hafa samið. Þeir sjá fréttir af ráðherrum á erlendum ráðstefnum. Þeir sjá ráðherra mæta einhvers staðar til að fullvissa fólk um að ekki eigi að skera niður. En þeir sjá ráðherra aldrei fara í fundaherferð til að verja niðurskurðartillögur og útskýra skattalækkanir.

En hvað gera þessir hefðbundnu hægrimenn á kjördag? Því svarar hver fyrir sig. En hvað sem þeir gera á kjördag mættu forystumenn hægrimanna velta fyrir sér hvað þessir stuðningsmenn gera fram að kjördegi. Þeir fyllast vonbrigðum. Þeir hætta að halda uppi vörnum fyrir sína menn í kaffitímanum. Þeir taka ekki lengur slaginn í fjölskylduboðunum. Þeir hætta smám saman að bera blak af kjörnum fulltrúum. Auðvitað skiptir slíkt máli.

Næst þegar í Þegar Gallup hefur samband segjast þeir vera óákveðnir. Í kosningum mæta þeir kannski sjálfir og kjósa, en þeir hvetja aðra ekki lengur með sér og reyna ekki að leiðrétta ranghugmyndir kunningjanna um einhver mál.

Það skiptir máli þegar hefðbundnir stuðningsmenn sjá varla lengur mun á sínum mönnum og hinum. Það er vissulega munur á verkum núverandi ríkisstjórnar og hinnar fyrri, en hann mætti svo vel vera meira áberandi.

En þegar afnám haftanna tekur ekki lengur tíma frá stjórnvöldum, þá kannski setja þau kraft í afnám vinstrimennskunnar.