Vefþjóðviljinn 157. tbl. 19. árg.
Íslenskir stjórnmálaflokkar snúast að mestu leyti um „baráttuna gegn vaxandi misskiptingu.“ Almenn stjórnmálaumræða er mjög mörkuð af áhyggjum manna af misskiptingunni og hvernig hún aukist hröðum skrefum.
Í nýjasta hefti hagtíðinda Hagstofunnar segir:
Árið 2014 dreifðust tekjur á Íslandi jafnar milli fólks en áður hefur sést í lífskjara-rannsókn Hagstofunnar en hún var fyrst framkvæmd árið 2004. Fimmtunga-stuðullinn og Gini-stuðullinn eru tvær mælingar sem eru notaðar til að mæla dreifingu tekna og hafa þessir stuðlar ekki mælst lægri í lífskjararannsókninni. Fimmtungastuðullinn sýnir að tekjuhæsti fimmtungurinn var með 3,1 sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti en hæstur var stuðullinn 4,2 árið 2009. Gini-stuðullinn mældist 22,7 en hæstur var hann árið 2009 eða 29,6.
En þótt tekjur hafi aldrei verið jafnari hér á landi frá því mælingar hófust er ekki miklu meiri misskipting hér en í þeim löndum sem viljum helst bera okkur saman við? Eigum við ekki að stefna að norræna velferðarmódelinu til að draga úr misskiptingu?
Um samanburð til önnur lönd segir í tíðindum Hagstofunnar:
Af þeim Evrópuþjóðum sem framkvæma lífskjararannsóknina var lægst hlutfall fólks á Íslandi undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun. Á Íslandi var hlutfallið 13% en 25% innan Evrópusambandsins. Næstu lönd á eftir Íslandi voru Noregur, Tékkland og Holland. Þau lönd þar sem fólk lenti helst undir lágtekjumörkum eða í félagslegri einangrun voru Búlgaría, Serbía og Rúmenía.