Föstudagur 5. júní 2015

Vefþjóðviljinn 156. tbl. 19. árg.

Hvað hefði verið sagt ef einhver þingmaður hefði sagt á þingi að tuttugasta öldin hefði verið mesta framfaraskeið Íslandssögunnar. Lífskjör batnað ótrúlega, lífslíkur hækkað verulega, heilsa almennt betri en áður, lög tryggðu mönnum mikilvægustu mannréttindi, atvinnulífið væri óþekkjanlegt frá því áður hefði verið. Og þetta hefði gerst á þeim tíma sem karlmenn hefðu verið yfirgnæfandi meirihluti þingmanna og ráðherra.

Hann segðist því leggja til að á næsta þing yrðu eingöngu kosnir karlmenn, til að sjá hvort þá hæfust ekki enn meiri framfarir.

Hann yrði talinn bilaður. Flokksfélagar kepptust um að afneita honum. Ályktanir kæmu í tugavís frá félögum sem enginn hefði áður heyrt um. „Samfélagsmiðlar“ myndu hreinlega loga. Að ekki sé minnst á athugasemdaþræði vefmiðlanna.

Enginn virðist hins vegar segja neitt þegar Ragnheiður Ríkharðsdóttir leggur til  að eingöngu konur verði kosnar á næsta þing. Sú sem leggur þetta til er nú bara þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, því auðvitað er hún það.

Og menn láta sér ekki nægja að segja ekki neitt. Menn vilja frekar hoppa á vagninn. Nú hefur Steingrímur. J. Sigfússon lagt til að eingöngu konur sitji á þingfundi 19. júní næstkomandi, þegar hið opinbera fagnar því að hundrað ár verði liðin frá því konur fengu kosningarétt, en gerir ekkert með að margir aðrir en konur fengu kosningarétt um leið.

Af því að Steingrímur J. Sigfússon er nýr á þingi þekkir hann ekki þær reglur sem þar gilda. Í 65. grein laga um þingsköp alþingis segir til dæmis: „Skylt er þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni. Forföll skal tilkynna forseta svo fljótt sem unnt er og metur hann nauðsynina.“

Það myndi nú auka hátíðleika stundarinnar ef meirihluti þingmanna tæki sig saman um að brjóta þingsköpin í tilefni dagsins.